Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lögregla leitar fólks til að mæta í sýnatöku

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - rúv
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að beita ýmsum aðferðum til að fá fólk, sem samkvæmt skilgreiningu lögreglu er í jaðarhópum, til að koma í sýnatökur þegar upp koma smit þeim tengd. Meðal annars hefur bíll á vegum lögreglu ekið um borgina þar sem fólki er boðið upp á sýnatöku. „Við þurfum að hugsa út fyrir kassann,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Um er að ræða nokkra tugi manna og kvenna, en fyrir nokkru kom upp smit sem tengist fólkinu og fór fólkið þá í fyrri sýnatöku. Um síðustu helgi var komið að því að fólkið færi í seinni sýnatöku, en heimtur í hana voru litlar. Margir í hópnum eru hvorki með fastan samastað né skráð heimili og heldur ekki með skráð símanúmer. 

„Það gekk ágætlega að fá fólk í fyrri sýnatökuna, en heldur verr að fá það í þá seinni,“ segir Ásgeir Þór. „Við erum í aðstæðum sem við höfum aldrei verið í áður og það skiptir máli fyrir okkur öll að leita allra leiða til að reyna að hefta útbreiðslu faraldursins og finna aðferðir sem virka. Við ókum um bæinn síðustu helgi með hjúkrunarfræðingi og mæltum okkur mót við þá sem við náðum í til að taka sýni.“

Lögregla er í samstarfi við Rauða krossinn, Frú Ragnheiði og rakningateymið við að ná sambandi við fólkið.  Ásgeir Þór segir að enn eigi eftir að fá talsvert marga úr þessum hópi til sýnatöku og segir að þetta sé nokkuð umfangsmikið verkefni. „En við höldum áfram, það er ekkert annað í stöðunni.“