Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landamæravörður sektaður fyrir að fletta upp í LÖKE

28.10.2020 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur staðfesti fyrir helgi dóm Héraðsdóms Reykjaness þar sem landamæravörður var sektaður um 100 þúsund krónur fyrir að fletta upp fyrrverandi unnusta sínum og konu sem hún sagðist óttast í LÖKE-kerfi lögreglunnar.

 

Málið á sér langan aðdraganda. Landsréttur ómerkti  dóm yfir landamæraverðinum fyrir tveimur árum og vísaði málinu aftur í hérað til nýrrar efnismeðferðar. Þá var hún, líkt og nú, dæmd til að greiða hundrað þúsund krónur í sekt.

Í dóminum kemur fram að rannsókn á málinu hafi hafist eftir að lögreglufulltrúa bárust ábendingar um að landamæravörðurinn væri að fletta óeðlilega mikið upp í LÖKE milli þess sem hún annaðist vegabréfaskoðun í vegabréfahliðum.  Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hún hafði verið að fletta upp í kerfinu málum sem virtust ekki tengjast starfi hennar.

Í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara sagði konan að ástæðan fyrir þessum flettingum hefði verið forvitni en hún hefði líka verið að afla sér upplýsinga um konu sem hún hefði óttast.  Hún tók fram að hún hefði ekki miðlað þessum upplýsingum til annarra.

Fyrir dómi sagðist landamæravörðurinn að hún hefði óttast um líf sitt og annarra fjölskyldumeðlima varðandi konuna sem hefði meðal annars borið hníf upp að hálsi hennar. Hún hefði óttast frekari aðgerðir ef hún legði fram kæru. Hún hefði því viljað kynna sér hver þessi kona væri og á hverju hún ætti von á.

Hvað unnustan fyrrverandi varðaði gaf landamæravörðurinn þá skýringu að það hefði tengst  „bílaveseni“.

Héraðsdómur taldi að konan hefði brotið gegn hegningarlögum með þessari hegðun sinni og að framburður hennar breytti engu um það.  Hann gæti aftur á móti haft þýðingu við mat á því hvað teldist hæfileg refsing.  Var landamæravörðurinn því dæmdur til að greiða 100 þúsund krónur í sekt eða sitja átta daga í fangelsi.