Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Jólin verða mörgum erfið í ár vegna faraldursins

Þeir sem þiggja aðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands telja að jólin verði mörgum erfið og þungbær. Mun fleiri hafa leitað til Hjálparstarfs kirkjunnar en í fyrra. Formaður Fjölskylduhjálparinnar segir að ríkið ætti að gefa öllum sem berjast í bökkum hundrað þúsund krónur til að halda gleðileg jól.

Fjölskylduhjálp Íslands aðstoðaði um 400 heimili og einstaklinga í dag með matarúthlutun. Fólk sem þiggur aðstoð segist kvíða fyrir jólunum í ár.

„Mjög já, ég bý ein núna, þess vegna er ég í þessum vandamálum  og ég veit ekki alveg hvernig þetta verður. Ég veit að fjölskyldan mín, mamma mín hún þarf örugglega hjálp um jólin. Kannski skiptir það mig meira máli að vera með fjölskyldunni en maður þarf að borða yfir jólin og þetta er stressandi tími. Þegar vikurnar líða þá er maður farinn að svitna alveg.“ segir Sunneva María Svövudóttir.

Þetta skiptir bara öllu máli. Ég hef þurft að stóla á þetta seinustu 6 ár af og til, og hef ekki getað haldið jól síðustu ár nema fyrir þetta.“

Heldurðu að þessi jól verði þyngri en seinustu jól?

Án nokkurs vafa. Það kemur ekki annað til greina. Það er allt dýrara, það er allt erfiðara, sérstaklega fyrir  sjúklinga og öryrkja og eldri borgara. Það er allt þyngra.“ segir Rósa Bragadóttir, sem bæði starfar sem sjálfboðaliði og þiggur aðstoð.

Mikil aukning á milli ára

Margir leita einungis aðstoðar fyrir jólin. Viðbúið er að álagið verði enn meira þetta árið, en frá því í mars hafa 40 prósent fleiri leitað til Hjálparstarfs kirkjunnar en í fyrra. Áskoranirnar við að veita aðstoð eru aðrar nú en í kjölfar bankahrunsins vegna sóttvarnarsjónarmiða.

„Þá var þetta bara vinna, þá bara unnum við fram á nótt og leystum málið. Nú er þetta bara miklu meira hvernig við eigum að koma aðstoðinni til þeirra sem þurfa á henni að halda. Við munum gera það hvernig sem við gerum það, en bara að finna lausnina“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.  Hún segir allt þetta ár hafa verið frábrugðið í starfinu, eins og víða. Aðkoma ráðuneyta og fyrirtækja sé mikilvæg á tímum sem þessum.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands tekur í sama streng og segir að hljóðið í skjólstæðingum sé þungt. 

„Þetta virðist vera miklu sálarlega erfiðara og efnahagslega erfiðara hjá fólki, svo ástandið er bara mjög vont.“ segir hún.

Hún kallar einnig eftir því að ríkið leggi sitt af mörkum svo að fólk geti haldið gleðileg jól.

„Það væri mjög gott fyrir ef fjármálaráðherra myndi ákveða núna fyrir jólin að láta alla hafa hundrað þúsund krónur skattfrjálst sem eru með svona litla framfærslu.“ segir Ásgerður.

Aukaúthlutun eftir helgina

Stórar úthlutanir fara fram hjá Fjölskylduhjálpinni reglulega. Úthlutanir eru annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar í Reykjanesbæ. Á milli stórra úthlutanna eru daglegar neyðarúthlutanir til þeirra sem ekki geta brauðfætt sig með öðrum hætti. Ásgerður segir að Fjölskylduhjálpin nái ekki að anna eftirspurn.

„Nei við getum það ekki. Við urðum að loka núna þegar það voru komin 400 heimili. En af því að við sjáum að við erum að fá mat þá munum við auka úthlutunardegi á mánudag, þá bætum við við 150-200 heimilum,“  segir Ásgerður.