Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hertar aðgerðir í Frakklandi og Þýskalandi

28.10.2020 - 19:21
epaselect epa08781089 German Chancellor Angela Merkel takes off her face mask at the beginning of a press conference after a video conference with German State Premiers about the current coronavirus situation, at the Chancellery in Berlin, Germany, 28 October 2020.  EPA-EFE/FILIP SINGER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti í dag um hertar aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Metfjöldi smita greindist í landinu síðasta sólarhringinn. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tilkynnti nú fyrir nokkrum mínútum um hertar aðgerðir þar í landi, vegna mikillar útbreiðslu.

Aðgerðirnar í Þýskalandi fela í sér að veitingastöðum, börum og fjölda verslana verður lokað næsta mánuðinn. Stórum viðburðum verður áfram frestað og fólk er hvatt til að ferðast ekki að óþörfu. Allir sem geta unnið heima eru hvattir til að gera það. Skólar og leikskólar verða þó áfram opnir. Samkomubann annars staðar miðast við tíu manns.
        
Tæplega fimmtán þúsund smit greindust í landinu síðasta sólarhringinn, það mesta þar í landi í faraldrinum. Staðan þar þykir þó mun skárri í Þýskalandi en víða annars staðar í Evrópu. Smit á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikur eru 156. Til samanburðar er hlutfallið hér á landi 253 smit.

Það eru ekki allir sammála stjórnvöldum um að ráðast í hertar aðgerðir. Eigendur veitingastaða og öldurhúsa ásamt listamönnum söfnuðust saman á götum Berlínar í dag og létu óánægju sína í ljós. 

epa08134052 French President Emmanuel Macron delivers his New Year wishes to the soldiers as he visits an army base in Orleans, France, 16 January 2020. President Macron will delivered the new year's speech to France's armed forces, amid new tensions in the Mideast and Africa.  EPA-EFE/JULIEN DE ROSA / POOL
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Hertu reglurnar í Frakklandi fela í sér að fólk sérstakt leyfi til að fá að yfirgefa heimili sín og ekki verður leyfilegt að ferðast á milli héraða. Fólk má aðeins fara að heiman til að versla helstu nauðsynjar eða til leita læknishjálpar. Þá verður leyfilegt að fara út í einn klukkutíma á dag til að hreyfa sig. 

Ólíkt því sem var í Frakklandi í vor þá verða skólar opnir nú, sagði Macron í sjónvarpsávarpi áðan. Háskólanemar verða þó áfram að læra á netinu og fólk á að vinna heima. Nú verður heimilt að heimsækja fólk sem dvelur á hjúkrunarheimilum, og sömuleiðis verða jarðarfarir heimilar. 

523 létust vegna COVID-19 í Frakklandi síðasta sólarhringinn. Það eru flest dauðsföll vegna faraldursins þar í landi síðan í apríl. Hertu reglurnar verða í gildi til 1. desember, en verða endurskoðaðar um miðjan nóvember.