Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hagnaður Íslandsbanka 3,4 milljarðar á þriðja fjórðungi

28.10.2020 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi var 3,4 milljarðar króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 2,1 milljarði. 

Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 3,2 milljörðum, en var 6,8 milljarðar fyrstu níu mánuði síðasta árs. Í árshlutareikningi bankans segir að minni hagnaður skýrist aðallega af neikvæðri virðisbreytingu útlána sem nemur sjö milljörðum. 

Útlán til viðskiptavina jukust um 37 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, en það skýrist helst af auknum fjölda húsnæðislána. Það skýrir einnig aukningu í útlánum til viðskiptavina á fystu níu mánuðum ársins. Þau námu samtals 970 milljörðum króna og jukust um 7,9% frá áramótum, eða um rúma 70 milljarða. 

Haft er eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra í árshlutareikningnum, að um 700 viðskiptavinir hafi fengið frystingu á lánum sínum vegna COVID-19.