Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Frakkar halda sínu striki gagnvart öfgasinnum

28.10.2020 - 16:27
epa07124963 Turkish President Recep Tayyip Erdogan (L) and French President Emmanuel Macron (R) attend a press conference during the Syria summit in Istanbul, Turkey, 27 October 2018. Turkish President Recep Tayyip Erdogan, Russian President Vladimir Putin, German Chancellor Angela Merkel, and French President Emmanuel Macron met in Istanbul to plan a political resolution for the conflict in Syria.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV / POOL
Erdogan, forseti Tyrklands, og Macron Frakklandsforseti á fundi með fréttamönnum í Istanbúl fyrir tveimur árum. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Frakklandi ætla að halda sínu striki í baráttunni gegn öfgasinnuðum íslamistum, þrátt fyrir andstöðu forseta Tyrklands og leiðtoga fleiri múslimaríkja. 

Gabriel Attal, talsmaður frönsku stjórnarinnar, greindi frá þessu að  loknum ríkisstjórnarfundi í París í dag. Hann sagði að ekki stæði til að gefa neitt eftir þrátt fyrir hótanir í garð stjórnarinnar og tilraunir til að grafa undan tiltrú á henni. Frakkar myndu aldrei falla frá þeim grundvallaratriðum sem lífsskoðanir þeirra byggðust á. Atburðir síðustu daga sýndu líka að Evrópuþjóðir stæðu þétt saman og fordæmdu ofbeldisverk íslamista eftir að ungur öfgamaður myrti franskan kennara á dögunum. 

Tyrkir hótuðu að beita lagalegum og diplómatískum aðgerðum gegn Frökkum eftir að skopmynd af Recep Tayyip Erdogan var birt á forsíðu tímaritsins Charlie Hebdo í dag. Erdogan hefur einnig lagt fram kæru á hendur Geert Wilders, leiðtoga Frelsisflokksins í Hollandi, fyrir margvíslegar móðganir í hans garð á Twitter síðustu daga. Ríkissaksóknari í Ankara hefur kæruna til meðferðar. Móðganir í garð Tyrklandsforseta varða allt að fjögurra ára fangelsi. 

Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, fór fram á það í dag að hætt yrði að birta skopmyndir af Múhameð spámanni. Fólk ætti að eiga rétt á að tjá sig um það sem því byggi í brjósti, en rétt væri að láta það ógert þegar særði tilfinningar meira en eins og hálfs milljarðs múslima. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV