Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fjögurra milljarða króna hagnaður hjá Arion banka

28.10.2020 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hagnaður Arion banka á þriðja ársfjórðungi var rétt tæpir fjórir milljarðar króna, en á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn tæpum 800 milljónum. Hagnaðurinn nemur rúmum 6,7 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins en var tæpir 3,9 milljarðar í fyrra.

Þegar horft er til afkomu áframhaldandi starfsemi bankans nemur hagnaðurinn tæpum fimm milljörðum, sem er 31% meira en var á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Arðsemi eiginfjár var 8,3% á þriðja ársfjórðungi, en var 1,6% á sama tíma í fyrra. Í afkomuyfirliti segir að rekstargjöld bankans hafi lækkað umtalsvert vegna skipulagsbreytinga á þriðja ársfjórðungi í fyrra, en þá var um hundrað starfsmönnum sagt upp. 

Tekjur hækka um rúmlega 6% og kostnaður var um 11% lægri en í fyrra. Þá segir að fjárhagsleg endurskipulagning hjá Valitor dragi úr neikvæðum áhrifum félagsins á uppgjör bankans. 

Haft er eftir Benedikt Gíslasyni bankastjóra í árshlutayfirliti að lausafjár- og eiginfjárstaða bankans sé sterkari en nokkru sinni. „Bankinn er í raun í þeirri stöðu að vera með of mikið eigið fé sem nær ómögulegt er að ávaxta í takt við markmið bankans,“ segir Benedikt.