Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fengu milljarða fjármögnun og ætla að fjölga fólki

Mynd: - / Sidekick Health
Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health fékk nýverið tæplega þriggja milljarða króna fjármögnun frá stórum erlendum sjóðum. Fyrirtækið stefnir á að þrefalda starfsmannahópinn á allra næstu misserum. Forstjórinn segir að þörf fyrir fjarheilbrigðiskerfi sé enn meiri nú þegar heimsfaraldur geisar.

Það voru tveir læknar, þeir Tryggvi Þorgeirsson og Sæmundur Oddsson, sem stofnuðu Sidekick Health árið 2014. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og þar vinna nú um 40 manns, langflestir á Íslandi en nokkrir erlendis.

Góður árangur

Fyrirtækið þróar meðferðir til þess að bæta heilsu og líðan fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma eins og sykursýki 2, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. 

„Og við notum síðan tæknina til þess að miðla meðferðinni til fólks, bæði snjalltækni, vef og annað, í gegnum okkar fjarheilbrigðiskerfi sem er CE-merkt lækningatæki,“ segir Tryggvi.

„Við höfum til dæmis verið að vinna með Sjúkrahúsinu á Akureyri sem notaði hugbúnaðinn í meðferð sykursjúkra, sjúklinga með sykursýki af týpu 2, með mjög góðum árangri. Þetta höfum við birt í erlendum vísindatímaritum. Og svo erum við að vinna mjög spennandi verkefni með krabbameins- og hjartadeild Landspítalans,“ segir Sæmundur.

Útvíkka vöruna

Stærstu viðskiptavinir fyrirtækisins eru hins vegar stór lyfjafyrirtæki á borð við Pfizer sem bæta þjónustu Sidekick ofan á hefðbundna lyfjameðferð, sem Tryggvi segir að skili meiri árangri en lyfið eitt og sér geti gert. Hvað söfnun heilbrigðisupplýsinga varðar segja þeir félagar að Sidekick uppfylli ítrustu öryggisstaðla og reglugerðir um meðferð upplýsinga sem séu alltaf ópersónugreinanlegar og dulkóðaðar.

Í dag var tilkynnt að fyrirtækið hefði fengið 20 milljóna dollara fjármögnun, en það nemur tæpum þremur milljörðum íslenskra króna. Það eru tveir stórir evrópskir sjóðir sem fjármagna, auk Novator og Frumtaks. Tryggvi segir að þetta sé stærsta fjármögnun fyrirtækisins hingað til.

„Þetta leyfir okkur að setja meiri kraft í allt sem við erum að gera,“ segir Tryggvi. „Þetta leyfir okkur að útvíkka vöruna, fara inn í fleiri sjúkdómaflokka, bæta við nýrri virkni, gera mikið af nýjum rannsóknum á virkni vörunnar í alls konar sjúkdómaflokkum, og halda áfram að bæta í okkar frábæra teymi.“

Ennþá ríkari þörf

Tryggvi segir ljóst að fyrirtækið þurfi að fjölga starfsfólki mikið á næstunni.

„Við þurfum að þrefalda hópinn á næstu misserum. Að langmestu leyti hér á landi en einnig munum við byggja upp sölu- og markaðsskrifstofu í Evrópu og í Bandaríkjunum.“

Eru svona sjóðir viljugri til þess að fjárfesta í svona fjarheilbrigðiskerfum núna þegar faraldurinn geisar?

„Þessi fjarheilbrigðisgeiri hefur farið hratt vaxandi síðustu ár, en auðvitað með faraldri eins og núna, þá verður þörfin ennþá ríkari,“ segir Tryggvi.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV