Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki hægt að skikka starfsmenn í heimavinnu

28.10.2020 - 10:20
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Atvinnurekendur geta ekki skikkað starfsmenn til að vinna heima samkvæmt kjarasamningsbundnum reglum um fjarvinnu. Forstöðumaður kjaramálasviðs VR segir að hugsanlega þurfi að skerpa á reglum um endurgjald vegna notkunar á eigin búnaði í heimavinnu.

Heimavinna eykst talsvert

Örlög margra á covid-tímum eru að vinna heima. Margir fagna því en aðrir eru kannski ekkert sérstaklega undir það búnir eða sáttir við að vinna heima. Samkvæmt tölum Hagstofunnar vann um þriðjungur launamanna á aldrinum 25 til 64 ára alveg eða stundum heima á síðasta ári. Yfir 4% gerðu það venjulega og rösklega 27% stundum. Það kemur ekki á óvart að heimavinna hefur aukist á þessu ári. Á öðrum ársfjórðungi unnu að jafnaði 42,5% launafólks heima. 6,5% unnu aðalstarf sitt venjulega heima og 36% stundum.

Fjarvinna í kjarasamningum

Í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum, sem gerðir voru 2006, var innleitt evrópskt samkomulag eða tilskipun um fjarvinnu. Bryndís Guðnadóttir, forstöðumaður kjaramálasviðs VR, segir að almennir kjarasamningar gildi hvort sem launamaður er á vinnustað eða heima hjá sér. Hún segir reyndar að hugsanlega megi skerpa á samkomulaginu frá 2006. Tæknin hafi breyst frá þessum tíma. Í samkomulaginu frá 2006 er skýrt kveðið á um að fjarvinna byggi á frjálsu vali viðkomandi starfsmanns og vinnuveitanda. Aðstæður eru kannski aðrar núna vegna Covid-19?

„Málið er samt alveg skýrt að hvorki starfsmaður eða atvinnurekandi í dag geti einhliða tekið þá ákvörðun að unnið sé heima. Þrátt fyrir aðstæðurnar í dag er alveg ljóst að það er samkomulag milli aðila. Atvinnurekandi getur ekki einhliða stillt starfsmanninum þannig upp að hann þurfi núna að vinna heiman frá sér ef að aðstæður eru ekki fyrir hendi heima fyrir eða slíkt. Og svo í hina áttina að starfsmaðurinn getur ekki heldur sagt; heyrðu miðað við þessar aðstæður er ég bara farinn heim að vinna. Þannig að það þarf alltaf að liggja fyrir samkomulag þarna á milli,“ segir Bryndís.

Mætti vera skýrara

 

Í samkomulaginu frá 2006 er sérstaklega kveðið á um búnað sem starfsmaður notar í fjarvinnu. Þar segir meðal annars að öll álitamál er varða búnað, ábyrgð og kostnað skuli skilgreind á skýran hátt áður en fjarvinna hefst. Einnig kemur fram að meginreglan eigi að vera sú að atvinnurekanda beri að útvega, tengja og halda við þeim búnaði sem nauðsynlegur er nema starfsmaður noti sinn eigin búnað. Sé fjarvinna innt reglulega af hendi bætir eða greiðir vinnuveitandi beinan kostnað sem stafar af vinnunni. Hann ber líka ábyrgð á kostnaði vegna taps eða skemmda á búnaði og gögnum sem starfsmaðurinn notar. Finnst Bryndísi ákvæðið um réttindamál þegar kemur að búnaði nægilega skýr? Á sá sem er í fjarvinnu rétt á að fá öll tæki og tól sem nauðsynleg eru í fjarvinnu? 

„Já, við teljum að svo ætti að vera en þarna er kannski eitthvað sem mætti vera mun skýrara, fáir þú ekki slíkt og þú notar þín tæki. Að það sé alveg augljóst hvaða endurgjald þú færð fyrir slit á búnaði til handa atvinnurekanda,“ segir Bryndís.  Hún segir að á þessu megi kannski skerpa því þetta sé ekki alveg ljóst. „Ég held að mörg fyrirtæki séu til fyrirmyndar. Ef starfsmaður fer heim þá fær hann til þess gerðan búnað til að geta sinnt vinnunni í fjarvinnslu.“

Með öðrum orðum eru reglurnar um fjarvinnu ef til vill óskýrar um notkun á eigin búnaði, húsnæði og fleiru í fjarvinnu. Á sá sem er heima rétt á einhverju endurgjaldi vegna notkunar á sínum eigin tækjum? Bryndís segir að það fari eftir því hvernig þetta er útfært:

„Segjum að þetta sé bara útfært þannig að allir fari heim að vinna. Þá er auðvitað rafmagnskostnaður og þessi fasti kostnaður færður yfir á annan aðila. Og við segjum að útlagður kostnaður fyrir vinnu á ekki að liggja á lenda á starfsmanninum.“

Gott að standa upp

Bryndís segir að fyrirspurnir félagsmanna vegna fjarvinnu séu ekki mjög margar en spurningar berist um ýmis atriði. Flestir líti svo á að heimavinna núna vegna Covid-19 sé tímabundið ástand og flestir séu samtaka um að komast í gegnum þetta. Hún segir að sumir spyrji um vinnutímann og neysluhlé. Hún segir að vinnutíminn eigi ekki að vera annar þegar fólk vinni heima og innan þess tíma eigi menn rétt á neysluhléum. Það sé mikilvægt að standa upp og taka sér hlé.