Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dauðsföllum vegna COVID-19 fjölgaði um 40% milli vikna

28.10.2020 - 01:31
epa08775250 A woman passes by an advertising panel reading 'let's save the distances' (in Spanish meaning the same as 'let's bridge the gap'), in San Sebastian, Basque Country, northern Spain, 26 October 2020. The mayor of San Sebastian's city mayor Eneko Goia reported on 26 October that the city has entered the 'red zone' and is preparing to adopt the restrictions imposed on municipalities with over 500 positive covid cases per 100,000 inhabitants.  EPA-EFE/JAVIER ETXEZARRETA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Dauðsföllum í Evrópu af völdum COVID-19 fjölgaði um hartnær 40 prósent milli vikna, samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, og staðfestum smitum um þriðjung á sama tíma. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir talskonu stofnunarinnar, Dr. Margaret Harris, að yfir helmingur allra nýsmita í liðinni viku hafi greinst í fimm ríkjum; Frakklandi, Spáni, Bretlandi, Hollandi og Rússlandi.

 

Harris segir það mikið áhyggjuefni, að gjörgæsludeildir sjúkrahúsa í álfunni séu nú óðum að fyllast af mjög veikum sjúklingum.

Mikill fjöldi smita í mörgum ríkjum álfunnar

Rússland er í fjórða sæti á lista Johns Hopkins háskólans í Maryland yfir fjölda staðfestra smita, á eftir Bandaríkjunum, Indlandi og Brasilíu. Þar greindust 16.550 ný tilfelli síðasta sólarhringinn.

Á Ítalíu hefur staðfestum smitum einnig farið hratt fjölgandi upp á síðkastið. Þar greindust nær 22.000 með COVID-19 síðasta sólarhringinn. Ítölsk yfirvöld leggja áherslu á að skimun hafi verið stóraukin síðustu daga, sem skýri þessa aukningu að minnsta kosti að hluta. S

mitum hefur fjölgað mjög í mörgum öðrum ríkjum Evrópu síðustu vikur, svo sem í Frakklandi. Þar voru staðfest smit síðasta sólarhringinn 33.417 og 523 dauðsföll rakin til COVID-19, og hafa ekki verið fleiri síðan í apríl.

Hertar aðgerðir víða en áhrif þeirra eiga eftir að skila sér

Mjög hefur verið hert á hvers kyns sóttvarnaaðgerðum í þeim löndum álfunnar, sem verst hafa orðið úti í þessari bylgju farsóttarinnar. Grímuskylda hefur víða verið tekin upp, næturlangt útgöngubann sett á í stórborgum og heilu landshlutunum, veitinga- og skemmtistöðum lokað, leikhúsum, kirkjum og líkamsræktarstöðvum líka, takmarkanir settar á starfsemi fyrirtækja sem ekki teljast sinna nauðsynlegri þjónustu, fjöldi þeirra sem mega koma saman takmarkaður við allt niður í fjóra og svo má lengi áfram telja.

Harris segir að áhrif allra þessara aðgerða eigi enn eftir að koma í ljós, ekki verði hægt að greina þau að gagni fyrr en eftir tvær vikur eða svo.