Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bók sem afneitar helförinni kynnt í Bókatíðindum

Mynd: RÚV / RÚV

Bók sem afneitar helförinni kynnt í Bókatíðindum

28.10.2020 - 11:56

Höfundar

Meðal þeirra fjölda bóka sem kynntar eru í Bókatíðindum í ár er þýðing á riti sem afneitar því að helförin hafi átt sér stað og hefur notið vinsælda hjá nýnasistum. Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda segir að ábyrgðin liggi hjá útgefanda bókarinnar og Bókatíðindum hafi aldrei, í langri útgáfusögu þeirra, verið ritstýrt.

Bókatíðindi ársins 2020 eru komin út á netinu og verður prentútgáfan send á íslensk heimili um miðjan nóvember. Ein þeirra bóka sem auglýstar eru í Bókatíðindum í ár nefnist Tröllasaga 20. aldarinnar, The Hoax of the 20th Century, eftir Arthur Butz prófessor í rafmagnsverkfræði við Northwestern háskólann í Bandaríkjunum.

Undirtitillinn, sem er ekki birtur í Bókatíðindum, er „Rökin gegn meintri útrýmingu evrópskra gyðinga“. Undirtitillinn virðist lýsa innihaldi bókarinnar ágætlega. Hún kom út 1976 og þar ku Butz leggja sig fram við að teikna þjóðarmorð nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni sem ýkjur, ef ekki hreinlega lygar, áróðursbragð gyðinga til að vinna að framgangi zíonismans. Skjöl hafa verið fölsuð í massavís, segir Butz, og gamlir nasistar heilaþvegnir til þess að viðurkenna eitthvað sem þeir gerðu ekki. Butz heldur því fram að gyðingar hafi búið til þessa tröllasögu, helförina, í pólitískum tilgangi.

Butz hefur verið gagnrýndur fyrir að sveipa þessar kenningar fræðilegum hugtökum til að gefa þeim gildi. Þess ber að geta að Butz er ekki sagnfræðingur heldur prófessor í rafmagnsverkfræði. En á einstaklega ófræðilegan hátt hunsar hann allar mótbárur eða mögulega gagnrýni, allar heimildir sem gefa annað til kynna séu brjálæðislegar eða heimskulegar. Sagnfræðingar hafa bent á ótal staðreyndavillur og mistúlkanir í bókinni og raunar komist að því að sem sagnfræði heldur bókin engu vatni.

Bönnuð í Kanada og Amazon neitar að selja hana

En ekkert af þessu kemur fram í kynningartextanum í Bókatíðindum. Þar eru orðin helför og gasklefar höfð innan gæsalappa og talað um að með vísindalegum vinnubrögðum vísi höfundur skjalafalsi, áróðri, ýkjum og skröksögum miskunnarlaust á bug og komist loks að rökréttri niðurstöðu í bókarlok. Sem sagt, rökrétt niðurstaða sé að helförin átti sér ekki stað.

Bókin hefur notið vinsælda meðal nýnasista og annarra sem sjá sér hag í að gleyma sögunni. Hún er bönnuð í Kanada, í Þýskalandi má gefa hana út en ekki stilla fram eða auglýsa og netverslunarrisinn Amazon neitar að selja hana. En nú kemur hún í fyrsta sinn út á íslensku á vegum dularfullrar útgáfu sem nefnist Betaíota, sem virðist ekki hafa gefið út aðrar bækur og ekki kemur fram hver þýðandinn er.

Á samfélagsmiðlum hefur nokkuð verið rætt um hvort það sé ábyrgðarleysi af hendi Bókatíðinda að birta kynningu á slíkri bók. Heiðar Ingi Svansson formaður Félags íslenskra bókaútgefenda segir að Bókatíðindum hafi aldrei verið ritstýrt í langri útgáfusögu þeirra. „Í fyrsta lagi eru ekki skorður á því í landinu hvaða bækur eru gefnar út, ég veit alla vega ekki til þess, og í þessari löngu sögu hefur það verið reglan að við höfum ekki ritstýrt. Enda höfum við oft ekki miklar upplýsingar um viðkomandi verk og skrifstofu félagsins sem sér um framkvæmdina á þessu er ekki uppálagt að gera neinar efnislegar athugasemdir um innihald bókanna sem koma þar fram.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Heiðar Ingi Svansson formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.

Grunnhugsunin með Bókatíðindum er að ná utan um stærstan hluta íslenskrar bókaútgáfu og endurspegla útgáfuflóruna, segir Heiðar Ingi. Þau séu ekki ekki tæmandi listi yfir allar bækur sem koma út á árinu. Bókatíðindin séu auglýsingabæklingur þar sem hver sem er getur keypt skráningu.

„Þetta er opinn vettvangur fyrir alla sem eru að gefa út bækur, ekki bara þá sem eru í Félagi íslenskra bókaútgefenda, heldur alla sem eru að gefa út bækur. Þetta er opinn vettvangur þar sem þú kaupir þér kynningu. Þú semur sjálfur kynninguna og það er engin ritstýring á því ... Hún er á þína ábyrgð. Þú gefur út bókina og ákveður hvernig þú vilt kynna hana og þú borgar fyrir þá skráningu. ... Innihald þessarar bókar er á ábyrgð þeirra sem gefa hana út. Það er alveg klárt. Það útgáfufyrirtæki sem er skráður útgefandi er ábyrgur fyrir því og ég held að það verði að vísa ábyrgðinni þangað.“

Opið og lýðræðislegt samfélag bjóði upp á aðra möguleika en bönn

Spurningunni um hvort bókaútgefendum á landinu hugnist útgáfubann eða takmarkanir á útgáfum svarar Heiðar Ingi þannig að frelsið sé vandmeðfarið og það sé aldrei án einhverra takmarkana. „Einn af hornsteinum bókaútgáfu er prent- og tjáningarfrelsi. Það eru auðvitað grunngildi. Við höfum líka séð neikvæðar hliðar á ritskoðun. Eitt getur hugnast mér í þessu landi en ekki í öðru landi. Við vitum um það að bókaútgefendur víða um heim eru að glíma við mjög erfitt tjáningar- og skoðanafrelsi og svo auðvitað skoðanakúgun líka. Síðan er það umræðan um hatursorðræðu. Nú hef ég ekki kynnt mér innihald þessarar bókar, mögulega reynir þessi ákveðna bók á einhver mörk sem hleypir af stað umræðu sem þarf að taka. En að sjálfsögðu varðandi Bókatíðindi vona ég almennt að allar aðrar bækur fái líka athygli en ekki þessi eina bók.“

Heiðar Ingi segir að opið og lýðræðislegt samfélag bjóði upp á aðra möguleika en að banna útgáfu tiltekinna verka. „Það er spurning hvort þessi útgáfa geti líka leitt til opinnar umræðu sem sé betri og gagnlegri heldur en bönn. Við vitum að bönn geta virkað á hinn veginn. Bann getur líka þýtt það að það geti verið meiri eldur á bál sem mögulega loga sem geta stuðlað að kynþáttahatri eða skoðunum sem eru ekki sagnfræðilega réttar. Það má alveg velta því fyrir sér.“

Tengdar fréttir

Erlent

Afneitun helfararinnar bönnuð á Facebook

Norður Ameríka

Fullorðnir Bandaríkjamenn vita lítið um helförina

epa08153812 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (R) and his wife Sarah (C), and Russian President Vladimir Putin (L) during their meeting at Netanyahu's official residence in Jerusalem, Israel, 23 January 2020. Russian President pays a working visit to Israel to take part in commemorative events timed for the 75th anniversary of the liberation of Auschwitz and International Holocaust Remembrance Day.  EPA-EFE/ALEXEY NIKOLSKY/SPUTNIK/KREMLIN / POOL MANDATORY CREDIT
Evrópa

Heimsleiðtogar minnast 75 ára frá frelsun Auschwitz

Trúarbrögð

Skólastjóri rekinn fyrir að afneita helförinni