Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Biðla til rjúpnaveiðifólks að bíða með veiði

28.10.2020 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: Daníel Bergmann
Rjúpnaveiðifólk er hvatt til að bíða með veiði á Austurlandi og halda sig frekar í heimabyggð vegna viðkvæmrar stöðu faraldursins á höfuðborgarsvæðinu. Veiðitímabilið hefst á sunnudaginn.

Rjúpnaveiði verður með sama sniði og í fyrra og er leyfð í samtals 22 daga í nóvember. Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til að gæta hófs og fylgja þeim sóttvarnareglum og tilmælum sem eru í gildi.

Sem stendur er ekkert virkt kórónuveirusmit á Austurlandi og hefur ekki verið um nokkurt skeið. Smit er í öllum öðrum landshlutum. Almannavarnir hafa hvatt fólk til að ferðast ekki á milli landshluta nema af ítrustu nauðsyn. Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hefur biðlað til rjúpnaveiðifólks, sem íhugaði ferðir austur, að fara hvergi þetta árið heldur halda sig í heimabyggð.  Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Það er auðvitað bara í samræmi við tilmæli sóttvarnayfirvalda og það er auðvitað þannig að þegar að tilmælin sem að sóttvarnayfirvöld setja fram snúa beint að manni sem persónu þá er auðvitað erfiðast að halda þau. Þá reynir maður kannski stundum að réttlæta fyrir sér hitt og þetta en það er bara í þessu eins og öðru að við þurfum bara að standa saman í þessu og fylgja þessum fyrirmælum,“ segir Guðjón.

Hann hvetur fólk heldur til tilraunamennsku í eldhúsinu þessi jólin - en skilur vel að rjúpunnar verði saknað af veisluborðinu.

„Ég auðvitað skil vel að jólamatur er mikilvægur og rjúpnaveiðin er mikilvæg og allt það en ég biðla nú til þeirra sem að huga á ferð út á land að hugsa sig tvisvar um og mögulega sýna einhverja takta í eldhúsinu og nýsköpun um jólin og prófa eitthvað nýtt.“