Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætla að umbylta svefnheiminum

28.10.2020 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn í Reykjavík
Svefnbyltingin, sem er fjögurra ára rannsóknaverkefni, fékk tveggja og hálfs milljarðs króna styrk úr Horizon 2020 rammaáætlun Evrópusambandsins fyrir rannsóknir og nýsköpun. Þróa á nýjar rannsóknaraðferðir á kæfisvefni og öðrum svefntengdum öndunarerfiðleikum. „Það sem við ætlum að gera í þessu verkefni er að umbylta svefnheiminum, segir Erna Sif Arnardóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og forstöðumaður Svefnseturs. Hún leiðir rannsóknina.

Helmingur styrksins verður nýttur hérlendis, meðal annars til að byggja upp gagnagrunn úr svefnmælingum 30 þúsund einstaklinga frá Íslandi og víða úr Evrópu. Vísindamenn í verkfræði, tölvunarfræði, sálfræði og íþróttafræði koma að rannsókninni auk íslensku fyrirtækjanna Nox Medical og Sidekick Health, og hátt í 40 samstarfsaðila í Evrópu og Ástralíu. 

Stefnan er sett  á að bæta svefnmælingar svo hægt sé að rannsaka fólk heima í þrjár nætur í stað einnar nætur á spítala nú. Einnig á að þróa gervigreind til að vinna úr niðurstöðum hraðar en fólk getur gert. „Því að aðferðirnar sem við erum að vinna með í dag eru byggðar á úreltum aðferðum, síðan við vorum að vinna á pappír á áttunda áratugnum.“

Nýjar aðferðir gætu haft mikil áhrif fyrir þau sem þjálst af svefntengdum öndunartruflunum. „Í dag er það þannig að sumir þeir sem eru að greinast eru ekki með nein einkenni og virðast ekki vera að fá neinar afleiðingar. Spurningin er hvort þeir þurfa að vera í meðferð, þeir þurfa að setja á sig svefnöndunartæki á hverri einustu nóttu. Svo eru aðrir sem við greinum ekki með núverandi aðferðum og þeir eru mögulega með svefnháðar öndunartruflanir sem þarfnast meðferðar, geta verið með miklar hrotur sem eru að valda mikilli syfju og miklum dageinkennum,“ segir Erna Sif. „Svo erum við líka að forprófa og vinna með tvær nýjar meðferðir við kæfisvefn, sem eru þá meiri lífstílsmeðferðir. Að fólk vinni meira sjálft og fái meiri þekkingu til sjálfs sín, hvað það geti gert til að breyta eigin lífi og jafnvel losna við kæfisvefninn.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV