Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja sjópróf: „Getum ekki lifað með þessu öðruvísi”

27.10.2020 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Fimm stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni hafa tekið höndum saman um að kæra skipstjórann og útgerðina Hraðfrystihúsið Gunnvöru til lögreglu fyrir að hunsa tilmæli yfirvalda um viðbrögð við hópsmiti á togaranum.

Tuttugu og tveir af tuttugu og fimm í áhöfn smituðust af kórónuveirunni. Félögin krefjast þess einnig að héraðsdómur Vestfjarða úrskurði að sjópróf fari fram. Þetta eru Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Sjómannafélag Íslands, Félag skipstjórnarmanna,  Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasamband Íslands. Valmundur Valmundsson er formaður þess síðastnefnda. 

„Það er semsagt beiðni um lögreglurannsókn á málinu til lögreglustjórans á Vestfjörðum og svo beiðni til héraðsdóms um að fram fari sjópróf í málinu til að leiða í ljós hvað raunverulega skeði þarna um borð og afhverju og hverjir þá bera ábyrgð ef svo ber undir. Það eru þá nokkurskonar vitnaleiðslur þar sem eru yfireitt þrír dómarar, einn löglærður og svo skipstjóri og vélstjóri eftir því hvernig aðstæður eru, sem eru meðdómarar. Það getur verið hver sem er en það er héraðsdómur sem ákveður það,” segir Valmundur.

Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri á Vestfjörðum segir að stefnt sé að því að ljúka yfirheyrslum allra almennra skipverja í dag, næstu skref í rannsókninni verði ákveðin að því loknu. Ekki er búið að yfirheyra skipstjórann eða forsvarsmenn útgerðarinnar og enginn hefur réttarstöðu sakbornings í málinu. Valmundur kveðst ekki muna eftir sambærilegu máli.

„Þetta er grafalvarlegt mál og ég held að við getum ekki lifað með þessu öðruvísi en að fá botn í þetta. “