Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja ná tali af gestum veitingastaðar vegna smits

27.10.2020 - 18:49
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur unnið að smitrakningu á Akureyri vegna kórónuveirusmits sem kom upp í gærkvöld á veitingastaðnum Berlín við Skipagötu. Lögreglan hefur óskað eftir því að allir viðskiptavinir sem voru inn á staðnum síðastliðinn laugardag, á milli ellefu og tvö, hafi samband við sig.

Í færslu á Facebook síðu veitingastaðarins kemur fram að starfsmaður í hlutastarfi, sem vann þennan eina dag á síðustu sjö dögum, hafi greinst með COVID-19 smit. „Í samráði við rakningarteymi Almannavarna hafa allir starfsmenn sem unnu með viðkomandi starfsmanni verið sendir í sjö daga sóttkví, og fara í sýnatöku að henni lokinni,“ segir í færslunni.

„Þeir starfsmenn sem störfuðu ekki á sömu vakt og viðkomandi starfsmaður fóru í sýnatöku fyrr í dag og munum við fá niðurstöður úr þeirri sýnatöku á morgun.“