Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrjár konur fara fram á skaðabætur vegna skimana

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Þrjár konur, sem telja sig hafa fengið ranga niðurstöðu úr leghálsskimun hjá Krabbameinsfélaginu, hyggjast fara fram á skaðabætur frá Krabbameinsfélaginu. Lögmaður kvennanna hefur nú á sínu borði mál þriggja kvenna sem telja sig hafa fengið rangar niðurstöður úr brjóstaskimun. 

Ein kvennanna fór í brjóstaskimun hjá Leitarstöðinni seinnipart árs í fyrra og var sagt að ekkert athugavert hefði fundist. Nokkru síðar fór hún að finna fyrir einkennum og fór í rannsókn hjá sérfræðilækni í sumar.

„Þá kom í ljós að hún er með níu sentímetra  illkynja krabbamein í brjósti og það er ansi stórt miðað við að hún hafði verið í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið áður,“ segir Sævar Þór Jónsson lögmaður kvennanna. „Hún er á því stigi í dag að krabbameinið hefur dreift sér og hún er að kljást við alvarlegar afleiðingar af því.“

Var sýnið sem var tekið í fyrra endurskoðað? „Gögn málsins gefa til kynna að það séu miklar líkur á því að sú sýnataka, það hafi orðið einhver misbrestur við greiningu. það hefði verið tilefni til að senda hana til frekari greiningar.“

Sævar segir að önnur þessara þriggja kvenna hafi farið í brjóstaskimun hjá Leitarstöðinni árið 2018 og fengið þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert. Hún var ekki sátt við það, leitaði til krabbameinssérfræðings og þar kom annað í ljós.

„Hún fer í skimun í febrúar 2018 og í júní 2018 fer hún til krabbameinslæknis og þá finnst tveggja sentímetra krabbamein í brjósti. Og þar er því líka um einhverskonar handvömm að ræða.“

Sævar hefur þegar vísað málum átta kvenna til Embættis landlæknis til nánari skoðunar. Þrjár þeirra hyggjast nú fara fram á skaðabætur frá Krabbameinsfélaginu vegna rangrar greiningar.