Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Riða staðfest á þremur öðrum bæjum

27.10.2020 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Riða á bæjunum Grænumýri og Syðri-Hofdölum í Blönduhlíð, og Hofi í Hjaltadal, hefur verið staðfest. Sauðféð sem riðan greindist í kom frá Stóru-Ökrum þar sem riða var staðfest í síðustu viku.

Ákvörðun um niðurskurð liggur ekki fyrir að svo stöddu en frekari rannsóknir standa yfir. Matvælastofnun hefur tekið tæp tvö þúsund sýni úr sauðfé innan Tröllaskagahólfs frá því að grunur um riðu kom upp, ásamt því að kortleggja flutninga sauðfjár til og frá bæjum innan hólfsins.

Smitandi riða greindist á bænum Stóru Ökrum í Skagafirði í síðustu viku og þar þarf að lóga um 800 kindum. Smitrakning á riðunni hófst þegar í stað.

Riða veldur hrörnunarskemmdum í heila og mænu kinda. Flestar kindur sem sýna einkenni sjúkdómsins eru á aldursbilinu eins og hálfs árs til fimm ára. 

Kindur geta gengið með riðu lengi án þess að hún komi fram. Oftast er kindin þó veik í mánuði áður en hún deyr. Veikin leiðir kindina stundum til dauða á fáum vikum, eða á skemmri tíma. Smitefnið virðist lifa í umhverfinu í meira en áratug og getur komið upp á sama bæ oftar en einu sinni.