Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Öllum innlögnum á Vog frestað eftir COVID-smit

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öllum innlögnum á Sjúkrahúsið Vog hefur verið frestað eftir að COVID-19 smit greindist hjá sjúklingi þar á laugardaginn. 17 sjúklingar af sömu deild eru nú í sóttkví auk þriggja starfsmanna. Þá greindist starfsmaður á Vogi með COVID-19 á sunnudaginn og fór einn samstarfsmaður hans í sóttkví í kjölfar þess.

Í tilkynningu frá Vogi segir að öllum innlögnum á Vog hafi verið frestað frá sunnudeginum.

Í dag og á morgun fara allir starfsmenn á Vogi og Vík og einnig allir inniliggjandi sjúklingar á Vogi í sýnatöku. Greinist ekki fleiri smit verður tekið við nýjum sjúklingum á Vog og er vonast til að það geti orðið frá og með fimmtudeginum.