Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Öll kerfi Háskólans á Akureyri liggja niðri

27.10.2020 - 14:13
www.danielstarrason.com
 Mynd: www.unak.is - Háskólinn á Akureyri
Öll kerfi Háskólans á Akureyri hafa legið niðri í dag vegna bilunar. Skólinn hefur í dag nýtt sér Instagram til þess að koma upplýsingum til nemenda.

Það var korter fyrir ellefu í morgun sem kerfi Háskólans á Akureyri duttu út og hófst þá þegar í stað athugun á því hver bilunin væri. Tæpum þremur tímum síðar fannst bilunin og stendur viðgerð nú yfir. 

Nýttu sér Instagam til að koma skilaboðum til nemenda

Til þess að koma skilaboðum til nemenda notfærði skólinn sér Instagram en þar var beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem bilunin hafði. Þá gafst nemendum kostur á því að fylgjast með gangi mála á síðunni status.unak.is.

Katrín Árnadóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs Háskólans segir í samtali við fréttastofu að búið sé að finna í hverju bilunin felst og nú sé viðgerð í fullum gangi. „Þetta hafði áhrif á þá nemendur sem voru staddir í skólanum í dag en það eru auðvitað margir að vinna heima um þessar mundir,” segir Katrín. 

Skólinn nýtti meðal annars Instagram til þess að koma skilaboðum um bilun á framfæri. „Við reynum að ná til nemenda með öllum þeim leiðum sem eru í boði. Auk þess að setja þetta á Instagram þá sendum við öllum nemendum skólans tölupóst nokkrum mínútum eftir að bilunin kom í ljós.” 

Mynd með færslu
Instagram-síða Háskólans á Akureyri