Menntaskólinn á Ísafirði fagnar 50 árum

Mynd: - / Menntaskólinn á Ísafirði

Menntaskólinn á Ísafirði fagnar 50 árum

27.10.2020 - 14:08

Höfundar

Í byrjun október fögnuðu nemendur og starfsfólk Menntaskólans á Ísafirði 50 ára starfsafmæli skólans. Á þessum tímamótum hafa nemendur við skólann aldrei verið fleiri. Áfangastjóri skólans segist oft hugsa með mikilli hlýju til þeirra heimamanna sem unnu að því hörðum höndum að koma af stað framhaldsskóla í heimabyggð.

Fagna með myndbandi um skólabraginn

Menntaskólinn á Ísafirði tók til starfa 3. október 1970. Þá voru 35 nemendur innritaðir við skólann. Heiðrún Tryggvadóttir, áfangastjóri við Menntaskólann á Ísafirði, segir að afmælisfögnuðurinn hafi þróast í takt við ástandið. Í upphafi átti fögnuðurinn að vera 500 manna veisla í íþróttahúsinu og átti að vera fyrsti stóri fögnuðurinn á nýju skólaári. „Við sáum það fljótt í haust að það var ekki að fara að gerast, en sem betur fer hafði kviknað sú hugmynd í vor að gera afmælismyndband, segir Heiðrún, en í myndbandinu var áherslan lögð á hvernig það er að vera nemandi við skólann.

„Þannig að það voru hátíðarhöldin sem að við settum af stað, það var að frumsýna þetta myndband. Og gaman að segja frá því að það voru þrír fyrrverandi nemendur skólans sem gerðu þetta myndband. Síðan buðum við nemendum og starfsfólki í léttar veitingar þar sem voru litlar kökur sem hver og einn gat tekið og allt með COVID-brag. En það er bara viku seinna að þá er skólinn kominn í enn þá meiri lokun. Þó þetta hafi ekki farið eins og við ætluðum í vor, þá fór þetta kannski betur en við gátum þorað að vona. Þetta var virkilega góður dagur og það var gaman að fagna með nemendum og starfsfólki þessum merkilegu tímamótum, rifjar Heiðrún upp.

Fjarnám mikil búbót og nemendur aldrei verið fleiri

Fjarnámskennsla við Menntaskólann á Ísafirði hefur þróast mikið síðustu ár. Heiðrún segir að nú séu fleiri fjarnámsnemendur að læra við skólann heldur en dagskólanemendur. „Ég er ekki viss um að fólk hér á svæðinu átti sig á því hvað við erum í raun stór, að nemendafjöldinn, að það hafi aldrei verið fleiri en akkúrat núna. Sem er auðvitað mjög skemmtilegt á þessum tímamótum. Að vera 50 ára og hafa aldrei verið stærri, segir Heiðrún. Fjarnámið sé þannig ótrúlega mikil búbót fyrir lítinn skóla og hafi stuðlað að fjölbreyttara námsframboði og auknum gæðum kennslunnar.

„Þetta er auðvitað grundvallarstarfsemi, að hér sé framhaldsskóli. Og ég hugsa oft með mikilli hlýju til þessara heimamanna sem unnu að því hörðum höndum að koma af stað framhaldsskóla. Og kannski gleymum við því hvað þetta er merkileg stofnun og mikilvæg svona dagsdaglega. En ég held að við getum öll séð hvað þetta skiptir miklu máli. Og það var einn nemandi í afmælismyndbandinu sem talaði um að það að hafa verið hér í framhaldsskóla var ein af ástæðunum að viðkomandi skilaði sér aftur heim. Og ég get sagt það fyrir mitt leyti líka að það tengdi mann öðruvísi við staðinn, heldur en ef maður hefði ekki verið hérna, segir Heiðrún.

Halla Ólafsdóttir ræddi við Heiðrúnu Tryggvadóttur í Sögum af landi á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Í innslaginu má einnig heyra hljóðbrot úr afmælismyndbandi Menntaskólans á Ísafirði.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lítur ekki öðruvísi á lífið eftir heilaáföllin

Mannlíf

Eina hafnsögukona landsins

Vesturbyggð

Mikil gleði við opnun Dýrafjarðarganga

Norðurland

Menntaskólinn á Tröllaskaga vel undirbúinn undir COVID