Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mega vera í fjarvinnu frá Íslandi í hálft ár

27.10.2020 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Ferðamála- og iðnaðarráðherra, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra hafa lagt fram minnisblað fyrir ríkisstjórn um aðgerðir sem gera erlendum ríkisborgurum, sem eru utan EES, kleift að dvelja hér á landi í allt að sex mánuði og stunda vinnu sína hjá erlendum fyrirtækjum í fjarvinnu.

Með breytingunni verður þeim ríkisborgurum, sem eru undanþegnir áritunarskyldu, heimilt að sækja um langtímavegabréfsáritun á Íslandi fyrir starfsmenn í fjarvinnu og fjölskyldur þeirra án þess að þurfa að flytja lögheimili til landsins eða fá kennitölur.

„Í kjölfar COVID-19 faraldursins hafa fjöldamörg fyrirtæki á heimsvísu opnað á fjarvinnu sem áður studdu ekki við það. Það er stór breyting og starfsfólk sem getur unnið fjarvinnu um allan heim er byrjað að líta í kringum sig að öðrum dvalarstað, þar sem þau þurfa ekki að hafa búsetu á sama stað og þau starfa,“ segir í tilkynningu ráðuneytanna.

Hingað til hefur einstaklingum sem eru í föstu ráðningasambandi við erlend fyrirtæki einungis verið heimilt að dvelja hér á landi í níutíu daga. Ráðuneytin hyggjast vinna áfram að því að skoða framkvæmdina til að hægt verði að bjóða upp á dvöl til enn lengri tíma.