Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mál Júlíusar Geirmundssonar rætt á fundi ríkisstjórnar

27.10.2020 - 15:25
Mynd með færslu
Sigurður Ingi Jóhannsson Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Mál frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun þar sem bæði heilbrigðisráðherra og samgönguráðherra kynntu minnisblöð. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir þetta „afar dapurlega uppákomu og vonandi einsdæmi.“

Fimm stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni hafa tekið höndum saman um að kæra skipstjórann og útgerðina Hraðfrystihúsið Gunnvöru til lögreglu fyrir að hunsa tilmæli yfirvalda um viðbrögð við hópsmiti á togaranum. 13 af 25 skipverjum eru í einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna en skipið var að veiðum í nærri þrjár vikur eftir að fyrsti maðurinn veiktist.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar minnisblað um hvort sóttvarnalög nái yfir atvik eins og þetta. Í minnisblaðinu kemur fram að lögin leggi fyrst og fremst skyldur á heilbrigðisyfirvöld og aðra til að koma í veg fyrir eða takmarka útbreiðslu smitsjúkdóma. 

Fátt í lögunum fjalli um viðbrögð heilbrigðisyfirvalda þegar í ljós hefur komið að smitaðir einstaklingar leituðu ekki til læknis eða var neitað um að leita til læknis.  Hafa verði í huga að ekki hafi verið mikil smithætta gagnvart almenningi enda hafi skipverjar ekki getað smitað út fyrir skipið.  

Út frá sóttvarnalögum hafi verið mikilvægt að tryggja að smit frá skipverjum bærist ekki víðar, meðal annars með læknisrannsóknum, einangrun og sóttkví og það hafi verið gert. 

Ráðuneytið bendir engu að síður á að sóttvarnalög leggi almennar skyldur á einstaklinga, meðal annars að þeir gjaldi sem mesta varúð við smitsjúkdómum og sá sem hefur ástæðu til að halda að hann hafi smitast af smitsjúkdómi sé skyldur að leita læknis án tafar.  „Að öðru leyti telur heilbrigðisráðuneytið að í ljósi þeirra málsatvika sem reifuð hafa verið í fjölmiðlum sé málið lögreglumál þar sem umræddum skipverjum kann að hafa verið stefnt í hættu.“ 

Sigurður Ingi Jóhannsson, sveita-og samgönguráðherra, kynnti einnig minnisblað um hvernig málið horfði út frá ákvæðum sjómannalaga um varnir gegn sjúkdómum og umönnun veikra skipverja. Sigurður segist á fundinum hafa kynnt fyrir ríkisstjórninni þau ákvæði sem eru í sjómannalögum um ábyrgð skipstjóra og þeirra sem fara með völd um borð og þau réttindi sem sjómönnum eru tryggð með þessum lagagrundvelli.

Þá sé í minnisblaði hans rifjað upp að SFS ásamt sóttvarnayfirvöldum gefið út yfirlýsingu í vor um ákveðnar verklagsreglur, meðal annars að tilkynna skyldi til Landhelgisgæslunnar ef grunur vaknaði um smit.  Það væru því þarna ákvæði sem væru væntanlega hluti af því sem lögreglan væri að rannsaka í tengslum við þetta mál. Það gætu þó líka verið almenn hegningarlög. Sigurður segir þetta „afar dapurlega uppákomu og vonandi einsdæmi.“