Lítur ekki öðruvísi á lífið eftir heilaáföllin

Mynd: Katrín Björk Guðjónsdóttir / Instagram

Lítur ekki öðruvísi á lífið eftir heilaáföllin

27.10.2020 - 09:11

Höfundar

Mannskætt snjófljóð féll á Flateyri árið 1995 en þá var Katrín Björk Guðjónsdóttir aðeins tveggja og hálfs árs. Katrín heldur úti vinsælu bloggi þar sem hún rifjaði í gær upp flóðið, húsið hennar sem eyðilagðist og æðruleysið sem hefur fylgt henni síðan þessi skelfilegi atburður átti sér stað. Það hefur hjálpaði henni mikið í bataferli eftir heilaáföll sem hún fékk á fullorðinsárum.

Katrín hefur þrisvar fengið heilaáfall sem gerir það að verkum að hún hefur misst málið en hún tjáir sig með stafaspjaldi. Mannlegi þátturinn á Rás 1 hafði samband við Katrínu og sendi henni spurningar sem Katrín svaraði skriflega en vinkona hennar, Ingileif Friðriksdóttir, las svör Katrínar upp í þættinum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bloggi Katrínar:

Ég man eftir þegar ég lék mér á grunninum á húsinu mínu, ég man eftir óörygginu, hræðslunni, óréttlætinu og sorginni sem ég fylltist og skynjaði í kringum mig þegar ég skammaði snjóinn og ég man hvernig hugur minn þroskaðist og ég gekk ekki að morgundeginum vísum.

Í gær, 26. október, voru akkúrat 25 ár liðin frá flóðinu. Fjölskylda Katrínar missti allt veraldlegt í hamförunum en komust eins og fyrir kraftaverk öll lífs af. Hún man ekki atburðinn sjálf en segir hann hafa haft áhrif á sig fyrir lífstíð.

Ég hef oft verið spurð að því hvort ég líti ekki öðruvísi á lífið eftir heilaáföllin þrjú, svarið er nei, ég var tveggja og hálfs árs þegar hugur minn tók í fyrsta skipti út ótímabæran þroska. Sem lítið barn í blóma lífsins náði ég í gegnum þessa hræðilegu og miklu sorg að halda í blómstrið með ör á sálu minni og skilning á lífinu sem ég vona að ekkert tveggja og hálfs árs gamalt barn þurfi að fá, svona er lífið í hnotskurn og það eina sem ég get gert er að njóta hvers dags sem mér er gefinn.

Okkur fjölskyldunni fannst ósanngjarnt að náttúran gæti rekið okkur frá Flateyri, þannig við þrjóskuðumst við og pabbi byggði aðra höll fyrir okkur á Flateyri. Í dag er hugurinn heima og hjá öllum sem misstu svo mikið. Ég kveiki á kertum og læt hugann reika um liðna tíð.

Hún var svo 21 árs þegar hún fékk fyrstu heilablæðinguna. Það var lítil blæðing sem var fljót að ganga til baka en tíu dögum síðar fékk hún blóðtappa á sama stað sem olli því að hún missti mátt í hægri höndinni. „Sex mánuðir liðu í miklum kvíða og óöryggi því ég var svo hrædd um að þetta myndi gerast aftur.“

14. júní það ár fékk hún stórt og mikið áfall og var send til Reykjavíkur í heilaskurðaðgerð. „Þá vaknaði ég degi of seint og gat ekkert hreyft nema annað augað,“ rifjar hún upp. „Ég lá lengi í öndunarvél á gjörgæslu en svo tók við ár af erfiðri sjúkrahúslegu. Frá og með þessum tíma hafa litlu og stóru sigrarnir unnist og unnist.“

Hún kveðst alltaf hafa verið jákvæð og það stendur ekki til að temja sér neikvæðni þrátt fyrir að stundum blási á móti. Snjófljóðið 1995 og hvernig fjölskylda og íbúar Flateyrar tókust á við það áfall í sameiningu situr alltaf í henni. „Ég var tveggja og hálfs árs þegar ég lærði að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar nýjar. Ég hef alltaf verið pirrandi jákvæði krakkinn í bekknum og ég held fast í þann eiginleika,“ segir hún.

Hér má lesa blogg Katrínar í heild sinni.

Gunnar Hansson og Guðrún Gunnarsdóttir ræddu við Katrínu Björk Guðjónsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Innlent

„Það kemur vonandi dagur eftir þennan dimma dag“

Vestfirðir

Grafin í snjóflóðinu í níu klukkutíma