Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kaldur vetur framundan á vinnumarkaði

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Helstu greinendur telja að erfiður vetur sé framundan á íslenskum vinnumarkaði og atvinnuleysi haldi áfram að aukast. Forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir að efnahagsbatinn hefjist í fyrsta lagi að ári.

Óvissan um þróun efnahagsmála hefur verið mikil frá því faraldurinn hófst í vor. Enginn veit hvenær bóluefni kemur á markað og enginn veit hvenær faraldurinn gengur niður. Víða loga rauð ljós í hagkerfinu og flestir greiningaraðilar spá sögulegum samdrætti í ár.

Þannig gerir Hagstofan ráð fyrir 7,9 prósenta samdrætti á þessu ári borið saman við 1,9 prósenta hagvöxt í fyrra. Búist er við að samdráttarskeiðið verði stutt og hagvöxtur taki við sér á ný strax á næsta ári.

Landsbankinn telur að samdrátturinn verði meiri á þessu ári eða 8,5 prósent.

„Við erum í sjálfu sér ekki að gera ráð fyrir því að efnahagsbatinn hefjist að neinu ráði fyrr en næsta haust og þá erum við að byggja á þeirri forsendu að það verði komið bóluefni í kringum áramótin, annað hvort rétt fyrir áramót eða rétt eftir áramót,“ segir Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.

Atvinnuleysi hefur einnig aukist hratt og spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir að hlutfallsleg aukning atvinnuleysis í ár verði næstmest hér á landi meðal þróaðra ríkja.

Atvinnuleysi jókst verulega í vor í fyrstu bylgju faraldursins og Vinnumálastofnun spáir að einn af hverjum tíu verði án vinnu í næsta mánuði.

Daníel segir miklu skipta að ferðaþjónustan nái viðspyrnu næsta sumar.

„Atvinnuleysi er komið upp í níu prósent og vinnumarkaðsþátttakan er að minnka þannig að raunverulegt atvinnuleysi, ef við tökum hlutaatvinnuleysi inn í þetta, er einhvers staðar í kringum 11 prósent. Við sjáum fram á það að vinnumarkaðurinn verður erfiður í allan vetur og langt fram á sumar áður en við sjáum atvinnuleysi koma niður aftur,“ segir Daníel. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV