Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Járnbrautir og valdaframsal í Noregi

27.10.2020 - 09:15
Mynd: Shutterstock / Shutterstock
Norska Stórþingið var reiðubúið að samþykkja nýjan pakka af reglugerðum frá Evrópusambandinu þegar stjórnarandstaðan náði óvænt meirihluta og sendi málið til Hæstaréttar. Nú á rétturinn að skera úr um hvort reglur ESB um rekstur járnbrauta feli í sér mikið eða lítið framsal valds. Og á meðan beðið er úrskurðar dómaranna er pakkinn í frysti. 

Járnbrautapakki 4

Draumur andstæðingana er að það sé hægt að stöðva framgang pólitísks máls með aðstoð dómstóla. Er hægt að láta hæstarétt ákveða hvort tiltekinn pakki af reglugerðum frá Evrópusambandinu verði tekinn upp í löggjöf ríkis utan sambandsins? Stöðva málið áður en það kemur til samþykktar.
Að þessu sinni er það járnbrautapakki fjögur – sambærilegur við orkupakkana sem komnir eru frá Evrópusambandinu og felldir hafa verið inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hugmyndin er að samræma reglur um rekstur á einstökum sviðum atvinnulífs og þjónustu, hvort sem það fjallar um raforku eða akstur járnbrauta. 

Gagnrýndur eins og á orkupakkar

Allar þjóðir á Evrópska efnahagsvæðinu skuli hafa sömu reglurnar. Það er ein forsenda þess að raunverulegri samkeppni fyrirtækja verði komið við. Að ein eftirlitsstofnun með samræmda löggjöf að baki sjái til þess að allir fari að reglunum.

Hér í Noregi hafa orkupakkar ESB sætt gagnrýni og járnbrautapakkar sambandsins ekki síður. Núna liggur fyrir Stórþinginu að samþykkja járnbrautapakka fjögur sem felur í sér samræminu á öryggiskrörfum – að samræmdir staðlar tryggi að allir geti keppt jafnt þegar rekstur á járnbrautum er boðinn út.

Flokkur forsætisráðherra einn óskiptur

Nú lítur út sem meirihluti sé á Stórþinginu fyrir samþykkt pakkans rétt eins og var um orkupakkann í fyrra. Hægriflokkur Ernu Solberg forsætisráðherra er eindregið með málinu og er raunar eini flokkur landsins sem óskiptur teldi Norðmönnum best borgið innan Evrópusambandsins. Verkamannaflokkurinn í stjórnarandstöðu er líka með og ekki nema græningjar, sósíalistar og miðflokksmenn á eindregið móti. Þeir eru í miklum minnihluta.

Verulegt eða óverulegt framsal

En andstæðingarnir hafa ekki gefist upp. Nú er búið að stöðva afgreiðslu málsins og senda það til Hæstaréttar til umsagnar og úrskurðar. Stjórnarskráin heimilar að Stórþing skjóti máli til hæstaréttar ef skera þarf út um álitamál. Og nú er álitamálið hvort járnbrautapakki fjögur feli í sér verulegt framsal valds eða óverulegt. Þetta skiptir öllu máli. 

Óvæntur meirihluti um að skotið skyldi til Hæstaréttar

Ef hæstiréttur segir að pakkinn sé verulegur að innihaldi þarf aukinn meirihluta á þingi til að fá hann samþykktan. Og aukin meirihluti hér þýðir þrír fjórðu atkvæða. Þar með væri pakkinn fallinn. Nú reynir á hugarleikni dómara í hæstarétti að meta hvað er óverulegt og hvað er meira en óverulegt.
Raunar kom það á óvart að meirihluti myndaðist á þingi um að senda hæstarétti þessa spurningu. Ríkisstjórn Ernu Solberg er minnihlutastjórn en nýtur stuðnings Framfaraflokksins, sem áður var í sjö ár í ríkisstjórninni hjá Ernu. Núna ákváðu Framfaraflokksmenn að snúast gegn stjórninni í þessu einstaka máli. Þar með var stjórnarandstaðan komin í meirihluta til að baka ríkisstjórninni vandræði. 

Eftirlitið til Brüssel

Í járnbrautapakkanum flest meðal annars að eftirlit með brautunum verður frá Brussel og Norðmenn hafa aðeins áheyrnarfulltrúa í eftirlitsnefndinni. Þeir hafa þar ekki atkvæðisrétt. Hæstiréttur þarf að svara hvort það sé mikið eða lítið framsal valds. Í fyrri járnbrautapökkum hefur rekstur sjálfra brautanna og rekstur járnbrautarlesta verið aðskilin og samkeppni í rekstri er byrjuð. Nú bætist við að leyfi til rekstrar verða að hljóta samþykki í Brussel.

Andstæðingar járnbrautapakkans, sem einkum hafa verið þingmenn Sósíalíska vinstriflokksins, fengu aðra stjórnarandstæðinga með sér í að skjóta málinu til hæstaréttar og þar með að stöðva afgreiðsluna um tíma. Rök sósíalista eru, auk ótta við framsal valds, þau að þjóðin hafi á meira en 150 árum byggt upp járnbrautakerfi landsins, lagt brautir með ærnu erfiði og kostnaði um dali og fjöll og nú eigi að afhenda allt útlendingum. Þar að auki hafi samkeppni í rekstri járnbrauta til þess síst bætt þjónustu við almenning.