Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Íbúar segja aðra sögu en Útlendingastofnun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þegar ég bað öryggisvörð um að útvega mér grímu og hjálpa mér að finna út úr því hvernig ég kæmist til læknis vegna húðsjúkdóms neitaði hann að aðstoða og skammaði mig fyrir að hafa enga grímu. Einnota gríman mín var þriggja daga gömul og mig sárvantaði nýja,“ segir Abdal Rahman Hameed, íbúi á Ásbrú, búsetuúrræði Útlendingastofnunar í Reykjanesbæ, í samtali við fréttastofu. „Næstu daga á eftir þorði ég ekki að sækja matarbakka af ótta við að vörðurinn tilkynnti mig til Útlendingastofnunar.“

Facebook-færsla vakti athygli í gær 

Rúmlega þrjú hundruð notendur Facebook hafa deilt færslu sem Facebook-síðan Refugees in Iceland birti í gær þar sem greint er frá bágum aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem dvelja á Ásbrú, og fjallað hefur verið um málið í fjölmiðlum. Þar kemur meðal annars fram að hverjum íbúa hafi aðeins verið gefin ein einnota gríma.
 
Þrír íbúar á Ásbrú hafa sagt í samtali við fréttastofu í dag að þeir hafi aðeins fengið eina einnota grímu og að öryggisverðir hafi neitað þeim um fleiri. Þá sé þeim óheimilt að fara út úr herbergjum sínum án þess að bera grímur. Seint í gær, eftir að fjallað var um Facebook-færsluna í fjölmiðlum, hafi góðgerðarsamtök fært íbúum þúsund grímur. 
 
Vegna faraldursins hefur öllum sameiginlegum rýmum á Ásbrú verið lokað, til dæmis eldhúsinu. Íbúar fá því senda matarbakka og í Facebook-færslunni segir að matur sé aðeins borinn fram tvisvar sinnum á dag á mjög afmörkuðum úthlutunartímum. Komi íbúar eftir auglýstan tíma fái þeir ekki mat. Maturinn henti illa fólki sem kljáist við heilsukvilla og sjúkdóma eins og sykursýki. 
 
Útlendingastofnun hafnar því sem fram kemur í færslunni í svari til fréttastofu og segir að engum sem sækir matarbakka utan auglýstra tíma sé neitað um hann, og heldur ekki fyrir að vera ekki með grímu. Íbúar geti nálgast grímur hjá öryggisvörðum eftir þörfum. Teymisstjóri hjá Rauða krossinum segir að samtökin hafi komið ábendingum á framfæri til Útlendingastofnunar um mikilvægi þess að bjóða upp á mat sem henti íbúum og taka tillit til sérþarfa. Rauði krossinn eigi von á því að fá kvartanir frá íbúum í viðtalstímum næsta fimmtudag.

Óttaðist viðbrögð öryggisvarðar 

Í færslu Refugees in Iceland er sérstaklega fjallað um mann sem þjáist af sykursýki og týndi einnota grímunni sinni sem var orðin allt of gömul og mikið notuð. Þar segir að öryggisvörður hafi neitað að gefa honum nýja grímu og hann hafi ekki fengið mat í þrjá daga.  
 
Fréttastofa ræddi við manninn í dag, Abdal Rahman Hameed, sem er nú kominn til Reykjavíkur í von um læknisaðstoð vegna húðsjúkdóms sem hann hefur þurft að kljást við í þrjá mánuði. Hann segir að viðbrögð öryggisvarðarins þegar hann bað um nýja grímu og leiðbeiningar til að komast til Reykjavíkur hafi verið slík að hann hafi óttast að hann myndi tilkynna hann til Útlendingastofnunar. Öryggisvörðurinn hafi hvorki aðstoðað hann né orðið við beiðni hans um nýja grímu heldur skammað hann fyrir að bera ekki grímu og sagt honum að láta sig í friði og vera ekki til ama. 

Vegna grímuleysis, og af ótta við að verða öryggisverðinum til ama, segist Abdal ekki hafa þorað að sækja mat næstu daga á eftir. Þá segir hann að maturinn sem þeim sé boðið upp á á Ásbrú henti alls ekki vel fyrir sykursjúka. 

Segir marga kljást við veikindi

Annar íbúi, sem vill ekki láta nafn síns getið, segist í samtali við fréttastofu hafa orðið vitni að framkomu öryggisvarðarins við Abdal í síðustu viku. Nú hafi til allrar hamingju orðið vaktaskipti.  

Hann segir að margir íbúar á Ásbrú þjáist af langvinnum sjúkdómum og að maturinn sé óhollur og henti mörgum afar illa. Þá komi það sér illa fyrir marga að aðeins megi sækja matinn innan þröngs tímaramma: „Við þurfum að fara til læknis eða í viðtalstíma, þá getum við vel misst af tímanum sem við höfum til að sækja matinn,“ segir hann. Hann lýsir reyndar sérstökum áhyggjum sínum af íbúum sem eru veikir en hafa ekki fengið aðstoð við að komast undir læknishendur.  

Útlendingastofnun segir íbúa fá grímur eftir þörfum

Í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn fréttastofu vegna málsins segir að í kjölfar þess að tveggja metra reglan tók gildi á öllu landinu þann 20. október hafi stofnunin gripið til hertra sóttvarnaráðstafana hjá í búsetuúrræðum stofnunarinnar. Þar sem ekki væri hægt að framfylgja tveggja metra reglunni í sameiginlegum eldhúsum hefði verið ákveðið að kaupa tímabundið matarbakka fyrir þá sem dvelja þar.  
 
Þá segir í svarinu að íbúum á Ásbrú sé ekki skylt að bera grímur í sameiginlegum rýmum en til þess sé mælst að þeir beri þær við matarúthlutun og þegar þeir umgangast aðra innan úrræðis án þess að geta viðhaft tveggja metra fjarlægð. Þeir eigi meðal annars að geta nálgast grímur hjá öryggisvörðum eftir þörfum.  

Útlendingastofnun hafnar því að nokkrum hafi verið neitað um matarbakka: „Hvorki fyrir að bera ekki grímu við úthlutun né fyrir að sækja matinn eftir auglýstan tíma,“ segir í svarinu. 

Reglugerð um útlendinga gerir ráð fyrir því að stofnunin útvegi fæði eða fæðispeninga. Í svarinu segir að umsækjendum um vernd sem dvelja á Ásbrú sé séð fyrir tveimur máltíðum á dag, hádegismat og kvöldmat, og fái greiddar 2.400 krónur í fæðispeninga á viku en fullir fæðispeningar eru 8.000 krónur á viku. „Við þetta bætast 2.700 krónur í framfærslufé á viku. Fæðispeningar og framfærslufé er greitt inn á fyrirframgreidd kreditkort sem hægt er að nota í ákveðnum verslunum,“ segir í svarinu. 

Rauði krossinn á von á fleiri kvörtunum frá íbúum

„Við höfum lagt áherslu á að í matnum sé tekið tillit til sérþarfa, bæði af heilsufarsástæðum og trúarlegum ástæðum. Við fengum ábendingar um það á fimmtudaginn að það vantaði upp á þetta. Við komum því á framfæri við Útlendingastofnun,“ segir Áshildur Linnet, teymisstjóri hjá Rauða krossinum, í samtali við fréttastofu. Nú skoði Rauði krossinn hvernig staðið sé að matarúthlutun á Ásbrú.  

Aðspurð um kvartanir frá Ásbrú segir Áshildur að einu kvartanirnar sem Rauði krossinn hafi fengið þaðan að undanförnu varði matinn. „En við höfum ekki fengið kvartanir um að það séu ekki nógu margar grímur í boði.“  Hún segir Rauða krossinn heldur ekki hafa fengið kvartanir um samskipti við öryggisverði að undanförnu: „Og samskipti við öryggisverði virðast ekki vera vandamál almennt, en auðvitað getur alltaf komið upp ágreiningur,“ segir hún. 
 
Þó segir Áshildur að Rauði krossinn geti vissulega ekki staðfest að ekkert hafi farið úrskeiðis þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum á Ásbrú. Vegna takmarkana séu færri heimsóknir Rauða krossins á Ásbrú en venjulega en þó sé reynt að halda eins góðu sambandi við umsækjendur um alþjóðlega vernd eins og kostur er, til dæmis geti þeir komið í viðtalstíma í húsnæði Rauða krossins. Næsti viðtalstími sé á fimmtudaginn og þá hljóti kvartanir að berast frá íbúum á Ásbrú.
 
Hún segir að Facebook-færslan kunni að vera til marks um það hversu mikilvægt sé að miðla upplýsingum um sóttvarnaaðgerðir með skýrum hætti. „Það er vont að þurfa að búa við íþyngjandi aðgerðir eins og lokun rýma og grímuskyldu. Þetta sýnir mikilvægi þess að aðgerðir séu vel útskýrðar fyrir fólki og að það sé gert á tungumáli sem fólk hefur fullt vald á. Lítill hluti þeirra sem dvelja á Ásbrú skilur ensku,“ segir hún.  

„Það hræðilegasta væri hópsýking“ 

Áshildur segir að það hræðilegasta sem gæti gerst í búsetuúrræðunum væri hópsýking. „Þetta er viðkvæmur hópur, margir sem glíma við langvinn veikindi og streita og flótti hefur ekki góð áhrif á heilsuna.“ Hún segir að til allrar hamingju hafi enn sem komið er ekki greinst smit í þessum hópi frá því að faraldurinn barst hingað til lands. Það sé til mikils að vinna að verja heilsu þessa hóps og gera þurfi fólki kleift að verja eigin heilsu.