
Frumvarp Katrínar gefur þingmönnum frjálsari hendur
Hávær krafa er um að tillögur stjórnlagaráðs frá árinu 2012 verði að nýrri stjórnarskrá, og Píratar, Samfylking, Flokkur fólksins og tveir óháðir þingmenn hafa lagt frumvarpið fram í fjórða sinn. Ólíklegt er talið að það verði samþykkt á þessu þingi.
En Katrín Jakobsdóttir ætlar líka að leggja fram fjögur frumvörp til að breyta stjórnarskránni í næsta mánuði. Hún gerir það sem óbreyttur þingmaður, eftir að hafa reynt að ná samkomulagi um frumvörpin á meðal formanna hinna flokkanna á þingi.
„Ég hef aðallega heyrt gagnrýni frá stjórnarandstöðuþingmönnum um að þau gangi ekki nægilega langt, til dæmis um auðlindaákvæðið,“ segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. „En þá munu þeir þingmenn standa frammi fyrir því að samþykkkja annað hvort auðlindaákvæði Katrína eða hafa áfram ekkert auðlindaákvæði í stjónrarskránni. Og ég held að líkurnar séu núna meiri en minni á því að þessi frumvörp verði samþykkt.“
Hvað þýðir það að hún leggur þessi frumvörp fram sem þingmaður en ekki forsætisráðherra? Þýðir það að viðræðurnar við hina formennina hafi siglt í strand?
„Ég er ekki viss um það sé hægt að fullyrða neitt um það en það er ljóst að það er ekki fullkomin eining á meðal formannanna um þetta. Þetta gefur þingmönnum frjálsari hendur að hún geri þetta svona.“
Að þeir hafi frjálsari hendur til að sameinast um þetta eða fara gegn þessu þvert á flokka?
„Sennilega minnkar það flokksagann ef þetta er ekki ríkisstjórnarmál,“ segir Ólafur.