Fjarlægðu fyrsta bú risa drápsgeitunga í Bandaríkjunum

27.10.2020 - 14:31
Mynd: AP / AP
Það þurfti hóp manna klædda þykkum hlífðarklæðnaði til að fjarlægja bú asískra risa drápsgeitunga innan úr tré í Washington ríki í Bandaríkjunum um helgina. Þetta er fyrsta bú slíkra geitunga í Bandaríkjunu, að sögn sérfræðinga.

Mennirnir, sem starfa fyrir landbúnaðardeild ríkisins, hófust handa snemma morguns á því að fylla sprungur fyrir ofan og neðan inngang búsins og vöfðu því næst tréð í plast, þannig að aðeins eitt op var inn í búið. Þar festu þeir tæki og soguðu geitungana í glerhylki og náðu þannig alls níutíu og átta drápsgeitungum, þar af þrettán sem enn voru á lífi.

Áttatíu og fimm til viðbótar voru sogaðir út úr trénu eftir að koldíoxíði hafði verið dælt inn í tréð. Alls tók þetta hátt í fjórar klukkustundir.

Stungur drápsgeitunga geta verið banvænar, sérstaklega ef manneskja er stungin mörgum sinnum. Þá ógna þeir einnig hunangsflugum, sem eru mikilvægar bæði í náttúrunni og landbúnaði enda dreifa þær frjókornum. Drottningin í búinu náðist ekki en búist er við að hún sé einhvers staðar inni í búinu.

Skordýrafræðingar fá nú það verkefni að komast að því hvort nýjar drottningar hafi verið byrjaðar að klekjast út í búinu og þannig aukið útbreiðslu tegundarinnar.

Starfsmenn landbúnaðardeildarinnar hyggjast halda áfram að reyna að fanga drápsgeitunga í gildrur í Whatcom sýslu, sem er nærri landamærum Washington ríkis að Kanada, að minnsta kosti út nóvember. Deildin hefur leitað markvisst að drápsgeitingum eftir að þeir fundust fyrst í ríkinu fyrr á árinu. Þeirra varð fyrst vart í Washington ríki í desember.