Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eldurinn kviknaði út frá potti

Eldur í Stararima
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Talið er kviknað hafi í einbýlishúsi við Stararima í Grafarvogi í gær út frá potti sem verið var að elda mat í á eldavél. Mjög miklar skemmdir urðu á húsinu og það er líklega ónýtt.

Málið er á borði lögreglustöðvarinnar við Vínlandsleið. Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri þar segir að það virðist liggja nokkuð ljóst fyrir hver upptök eldsins voru. 

„Það er grunur um að hafi kviknað í út frá potti á eldavél, það virðist nokkuð ljóst hvað gerðist. Húsráðandi var einn heima og slapp vel frá þessu. Þetta var talsvert mikill eldur,“ segir Valgarður.

Frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu fengust þær upplýsingar að flest bendi til þess að húsið sé ónýtt.