Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ég geri ráð fyrir að spítalinn sé að skoða þetta mál“

27.10.2020 - 19:02
Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso / Ljósmynd
Heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir að Landspítalinn sé að skoða tildrög og afleiðingar hópsýkingarinnar á Landakoti, eins og öll önnur mál. Hún segir samfélagið, og aðra sem koma að málinu, munu draga af því lærdóm.

Um 90 manns hafa smitast af COVID-19 eftir að hópsýking kom upp á Landakoti. Sjúklingar af Landakoti voru fyrir mistök sendir smitaðir á stofnanir í öðrum landshlutum, þar sem fjöldi sjúklinga og starfsmanna hefur smitast og enn fleiri hafa þurft að fara í sóttkví. 

„Þarna eru gríðarlega margar spurningar sem koma upp á sama tíma og mörgum þeirra þarf að svara,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Við sjáum dæmi um að það hafi þurft að snúa sjúklingum við, en ég trúi því og treysti að starfsfólk Landspítalans undir þessum kringumstæðum eins og öllum öðrum sé að gera sitt besta - og veit að svo er.“

Þetta er í annað skiptið sem hópsmit kemur upp á Landakoti, en í fyrra skiptið var ekki farið í svokallaða rótargreiningu, djúpstæða rannsókn á því sem fór úrskeiðis. Spítalinn ákveður sjálfur hvort hópsmitið verður rannsakað þannig að þessu sinni, og hvort það verður tilkynnt til Landlæknis sem alvarlegt atvik.

Færri heilbrigðismenn smitast

Smitin eru rakin til heilbrigðisstarfsmanna en á Landakoti dvelur sá hópur fólks sem heilbrigðiskerfið leggur mesta áherslu á að vernda. Fréttastofu er kunnugt um sjúklinga sem eru í lífshættu eftir að hafa smitast á spítalanum að þessu sinni.

„Það sem við höfum séð þegar við könnum mótefnastöðu heilbrigðisstarfsfólks, er að færri heilbrigðisstarfsmenn hafa sýkst af Covid heldur en gerist og gengur í samfélaginu almennt,“ segir Svandís.

Aðspurð að því hvort spítalinn skuldi ekki sjúklingum sínum að rannsaka smitleiðirnar í grunninn svarar hún: „Ég geri ráð fyrir því að spítalinn sé að skoða þetta mál eins og öll önnur. Eins og við höfum séð alls staðar í löndunum í kringum okkur er enginn öruggur.“

Treystir stjórnendum spítalans

Spítalinn hafi beitt reglum sínum og aðferðum til að hindra smit.

„Við þekkjum strangar heimsóknarreglur sem mörgum gremst að undirgangast, sem eru partur af þessu. Þetta er alltaf þessi línudans á milli þess að vera með of harðar og of linar aðgerðir. En við erum að læra í hverju skrefi, hvort sem það eru heilbrigðisyfirvöld, sóttvarnalæknir eða spítalinn eftir atvikum. Og auðvitað er þetta líka atburðarás sem við erum öll að draga lærdóm af, bæði samfélagið og aðrir sem koma að því.“

Þannig að stjórnendur Landspítalans njóta ennþá þíns trausts?

„Að sjálfsögðu,“ segir Svandís Svavarsdóttir.