Vannært barn að bíða læknishjálpar í Bani Qais í Jemen í síðasta mánuði. Mynd: EPA-EFE - EPA
Æ fleiri börn í Jemen búa við alvarlegan næringarskort. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Matvælaáætlunar samtakanna og Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar FAO.
Nýleg könnun hafi leitt í ljós að meira en hálf milljón barna yngri en fimm ára þjáðist af næringarskorti í suðurhluta Jemen. Búist sé við að þróunin sé svipuð í norðurhluta landsins, en þar sé nú verið að kanna ástandið. Að minnsta kosti 98.000 börn séu í bráðri lífshættu.
Ástandið í Jemen hafi ekki verið verra síðan stríð hófst þar árið 2014. Ríflega 24 milljónir manna eða nærri 80 prósent landsmanna treysti á einhvers konar aðstoð, en draga hafi þurft úr aðstoð vegna fjárskorts.