Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

25 sjúklingar af Landakoti liggja á sjúkrahúsi

27.10.2020 - 19:40
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Fréttir
Hópsýkingin á Landakoti er nú komin upp í að minnsta kosti níutíu smit og hefur veiran greinst í sjúklingum á þremur deildum spítalans. Ákveðið hefur verið að skima alla sjúklinga sem verða fluttir frá spítalanum á aðrar stofnanir.

Ekki mannskapur til að hólfaskipta

59 greindust jákvæðir í gær, 40 voru í sóttkví. 56 liggja á sjúkrahúsi, þar af eru 25 sjúklingar af Landakoti.

Ekki er búið að hefta hópsýkinguna þaðan og enn er verið að skima fólk sem getur hafa smitast. Veiran hefur smitast milli þriggja deilda spítalans. Ólafur Guðlaugsson, smitsjúkdómalæknir og yfirmaður sýkingavarnadeildar Landspítala, segir að Landakoti hafi verið hólfaskipt eins og hægt er.

„En það eru alltaf einhverjir sem fara á milli og það er greinilegt að það hafa farið á milli einstaklingar sem hafa geta borið með sér smit og dreift.“

- Hverjir eru það þá sem fara þarna á milli og af hverju er ekki skipt í ákveðin sóttvarnahólf þarna eins og hjá mörgum stofnunum og fyrirtækjum?

„Ja ástæðan er náttúrulega sú að það eru mjög margir sem þurfa að koma að umönnun sjúklinga og þjónustu við deildirnar og það er einfaldlega ekki til mannskapur til að hólfaskipta algjörlega öllum einingum Landspítalans,“ segir Ólafur.

Telur ólíklegt að skimun hefði komið í veg fyrir útbreiðslu

Smitið dreifðist á Reykjalund og hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka, þangað sem sjúklingar af Landakoti voru fluttir. Farsóttanefnd hefur nú ákveðið að allir sjúklingar sem flytjast frá Landspítala á aðrar stofnanir verði skimaðir. Ólafur segir þó ekki víst að slíkt hefði komið í veg fyrir útbreiðslu hópsýkingarinnar.

„Við höfum ekki talið að það að skima væri nauðsynlegt hingað til og ég er ekki viss um að við hefðum náð öllum þessum einstaklingum af því við vitum það ósköp vel að skimunin segir okkur bara svo mikið.“

Lögð hafi verið áhersla á einstaklingsbundnar sýkingavarnir. „Maska, spritti og einkennaskimun og það hefur gefið mjög góða raun það sem af er faraldrinum en nú þurfum við að reyna að átta okkur á því hvernig þessi atburðarás þróaðist.

- Nú hefur það sýnt sig að einstaklingsbundnar smitvarnir hafa ekki orðið til þess að stöðva útbreiðslu þessarar hópsýkingar, er þá ekki ljóst að það þarf eitthvað að gera til að þetta komi ekki fyrir aftur?

„Jú það fyrsta er að reyna að skilja hvað gerðist og í hverju við getum bætt okkur í það er það sem við erum stöðugt að gera.“

Spítalinn óskar eftir vinnufrið

Spítalinn skoðar hvort misbrestur hafi orðið á sóttvörnum eða verklagi spítalans. Í tilkynningu sem birtist á vef spítalans síðdegis segir að vangaveltur um hugsanlega framvindu á athugun á hópsýkingunni séu ótímabærar og megi ekki tefja það vandasama verkefni að vinna úr þessari alvarlegu stöðu.  Enginn ágreiningur sé á milli Landspítala og Embættis landlæknis um skoðun spítalans á atvikinu.