„Við höfum öll verið Jaja dingdong-gæinn“

Mynd: . / Úr einkasafni

„Við höfum öll verið Jaja dingdong-gæinn“

26.10.2020 - 15:02

Höfundar

Hjarta Katrínar Júlíusdóttur, sem var að gefa út sína fyrstu bók, er í laginu eins og Kópavogur. Hún segir marga haldna fordómum gagnvart bænum og geri grín en hún, sem er jafnan kölluð Kata úr Kópavogi, er stolt af honum. Henni þykir líka afar vænt um Húsavík þar sem hún dvaldi mikið sem barn og tengdi hún mikið við Eurovision-mynd Wills Ferrels og Húsvíkingana sem þar birtust.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, venti kvæði sínu í kross á dögunum og gaf út glæpaskáldsögu. Eiginmaður Katrínar, Bjarni Bjarnason rithöfundur, hvatti hana til dáða í skrifunum. Bókin, sem nefnist Sykur, hefur fallið vel í kramið. Katrín hlaut á dögunum Svartfuglsverðlaunin fyrir hana. Hún gengst þó ekki við því að hafa sprottið fram sem fullskapaður rithöfundur með bókinni. „En þetta var heiðarleg tilraun má segja,“ segir hún hógvær. „Ég hef sagt það að með því að búa með rithöfundi verður hægt og rólega eðlilegt að skrifa bók. Maður fer að hugsa hluti í þann farveg sem er eitthvað sem ég hafði ekki gert áður,“ segir Katrín. „Maðurinn minn sagðI: Heyrðu þú getur alveg skrifað, ég veit það. Ég ákvað því að prófa þetta.“ Katrín kom í þáttinn Fram og til baka til Felix Bergssonar. Í dagskrárliðnum Fimmunni taldi hún upp fimm bæjarfélög á Íslandi sem standa hjarta hennar næst.

Bæjarfélagið verður hluti af manni

Húsavík er ofarlega á blaði enda er faðir Katrínar, Júlíus Stefánsson, fæddur og uppalinn þar. Þar dvaldi hún mikið sem barn á heimili ömmu sinnar og afa og þar búa margir ættingjar hennar enn. „Ég held að þegar maður er svona ungur og fær svona mikla ást frá bæjarfélagi verður það bara hluti af manni,“ segir hún. Hún reynir að fara eins oft og hún getur norður. „Þegar ég keyri þangað stoppa ég á hæðinni, horfi yfir bæinn og dreg andann. Þá finnst mér ég hálfpartinn komin heim. Og Katrín var hrifin af Eurovision-mynd Wills Ferrel og fannst hún þekkja bæði landslagið og persónurnar sem þar komu fram. „Við þekkjum öll þessa karaktera. Ja-ja ding dong-gæinn, við höfum öll verið hann.“

Hjartað í laginu eins og Kópavogur

En mest tengir Katrín við Kópavog enda segir hún flesta þekkja sig sem Kötu úr Kópavogi. Þangað flutti hún níu ára gömul. „Og ég segi stundum að hjartað mitt hafi orðið í laginu eins og Kópavogur,“ segir hún. Þá skiptist Kópavogurinn bara í Austur- og Vesturbæ en þar var ekkert Smárahverfi, Lindahverfi eða Kórar. „Þetta var allt öðruvísi. Við erum frumbyggjar í Túnunum í Fossvogsdal og þegar við fluttum inn í húsið okkar var bara malarvegur,“ segir Katrín.

„Ég er þjóðernissinnaður Kópavogsbúi“

Og bestu vinir hennar eru enn í dag þau sem hún kynntist í Kópavoginum. „Ég man þegar ég var níu ára og stend inni hjá ritaranum með mömmu og rek augun í unga stúlku hjá mömmu sinni. Ég man eftir að hugsa: Mér líst vel á þessa. Við erum enn bestu vinkonur í dag og notum hashtaggið #200forever,“ segir Katrín. Hún gekk í Snælandsskóla og fór þaðan í Menntaskólann í Kópavogi. „Þannig verð ég þjóðernissinnaður Kópavogsbúi,“ segir hún glettin. Og Kópavogskrakkarnir létu það ekkert á sig fá þó aðrir ættu erfitt með að sjá sjarmann við bæinn. „Það var gert grín og því haldið fram að þetta væri svo flókið gatnakerfi, sagt að þetta væri gegnumakstursbær og að enginn stoppaði þarna. Að það væri skrýtið að vera með bensínstöð inni í undirgöngum undir blokk,“ telur hún upp. „Ég man að við hlustuðum ekki á þetta. Sögðum að áunnin greindarvísitala væri bara nokkuð há þarna og ef fólk rataði ekki í Kópavogi væri það ekkert vandamál. Og skiptistöðin er frábær, þarna er breiður gangur neðanjarðar með graffiti og fullt af krökkum. Þetta var eins og útlönd, aðrir bara skildu þetta ekki.“

Ömurlegt að geta ekki haldið útgáfupartý

Aðrir staðir sem hún nefnir eru Sandgerði, Eyrarbakki og núverandi heimkynni hennar sem eru í Garðabæ. Hún hefði aldrei trúað því að hún myndi flytja þangað en þar líður fjölskyldunni vel. Yngri strákarnir hennar eru farnir að líta á sig sem Garðbæinga. Elsti drengurinn gerir það hins vegar alls ekki, hann er eins og móðir hans, alltaf með Kópavog í hjarta og meira að segja með húðflúr sem sannar það.

Í eðlilegu árferði væri mikið að gera í kringum kynningarstarfsemi á bókinni með tilheyrandi upplestrum og ferðalögum en vegna ástandsins er lítið um slíkt. Sárast finnst Katrínu þó að hafa misst af því að halda útgáfupartý.  „Mér fannst það ömurlegt, það er svo gaman að halda partý, að hitta vini og kunningja og hafa tilefni til að hóa fólki saman,“ segir hún. Hún er komin með hugmynd að næstu bók í kollinn svo aðdáendur geta byrjað að hlakka til að lesa meira frá henni. „Nú er bara að sjá hvort mér takist að skrifa hana, ég veit það ekki,“ segir hún þó að lokum.

Felix Bergsson ræddi við Katrínu Júlíusdóttur í Fram og til baka á Rás 2.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Fyrrverandi ráðherra með Rammstein í botni við skriftir

Mannlíf

„Mér leið oft ekki vel ef ég var of hvatvís“