Halla Þórlaug segist fara algerlega inn í kvikuna í þessari bók. „Ég er algerlega inni í kvikunni. Ég er að fjalla um sambandsslit en ekki bara ein sambandsslit heldur mörg og þau tvinnast saman í gegnum skáldskapinn. Þetta eru gamlir textar og glænýjir textar sem áttu leið inn í sama Google-doc skjalið einn góðan veðurdag.“
Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði Höllu fyrr á þessu ári Nýræktarstyrk fyrir þetta verk, en styrkirnir eru veittir árlega fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut.
Í umsögn bókmenntaráðgjafa Miðstöðvar íslenskra bókmenna um Þagnarbindindi segir:
„Ljóðsagan Þagnarbindindi miðlar hugarheimi konu sem reynir að ná tökum á minningum um missi og ótta, um samskipti við konurnar sem hafa verið henni nánastar og henda reiður á svo mörgu sem hún hefur aldrei sagt. Á yfirborðinu hafa ljóðin lágstemmt yfirbragð hversdagsraunsæis en markvisst myndmál og athuganir undirstrika sársaukann í þögninni og tilfinningalega dýpt undir kyrrlátu yfirborðinu.“
Halla hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1 og meðal annars stýrt menningarþáttunum Víðsjá, Tengivagninum og Bók vikunnar. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist og úr ritlist við Háskóla Íslands árið 2014.
„Þögnin er flókið fyrirbæri“
Framan á eiturbleikri bók er eftirfarandi tilvitnun í verkið: „Það eru kaflar um mæður og það eru kaflar um dætur. Kaflar um konur og kaflar um þig. Á milli þessara kafla eru kaflaskil og þar er kannski mesti sársaukinn.“ Halla Þórlaug skrifar um sársauka í þessari bók sem tengist meðal annars sambandsslitum, því að bera frumburð undir belti í framandi stórborg og móðurmissi. „Við erum öll tifandi tímasprengjur,“ skrifar Halla. Og hún skrifar líka um þrúgandi þögn milli tveggja elskenda í vanda, kæfandi, þykka þögn sem umlykur þungar hugsanir.
„Í þögninni er skerandi sársauki,“ segir Halla, „ég held að við þekkjum það öll sem höfum þagað á ólíkum stundum, þagað með öðru fólki. Og það getur verið svo erfitt að þaga, á ögurstundum að átta sig á því að stundum er best að þegja, bara hlusta. Þögnin er flókið fyrirbæri.“