Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þessi möguleiki er alltaf fyrir hendi“

©Kristinn Ingvarsson
 Mynd: Háskóli Íslands
Ekki er hægt að spá fyrir um hópsmit á borð við það sem kom upp á Landakoti fyrir helgi. Þetta segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og ábyrgðarmaður spálíkans Háskóla Íslands um þróun kórónuveirufaraldursins. Hann segir erfitt að segja til um hvaða áhrif þetta muni hafa á þróun faraldursins.

„Svona er ekkert hægt að spá fyrir. Þetta er bara, það er ekkert hægt að orða það öðruvísi, ferleg óheppni. Það er ekkert hægt að setja það í líkan. en á móti kemur að þetta er hópsmit, vonandi afmarkað við þennan hóp og ekki þá að skila sér í samfélagssmit,“ segir Thor.

Síðasta spálíkan kom út í síðustu viku og næsta líkans er að vænta síðar í þessari viku. Thor segir erfitt að segja til um hvaða áhrif þetta hópsmit geti haft á þróun faraldursins 

„Þetta tefur auðvitað aðeins fyrir,  bætir einhverjum smitum við. Það á eftir að koma í ljós hvaðan einstaklingurinn sem smitaði, hvaðan hann fékk smitið.“

Kom þetta þér á óvart sem höfundi spálíkansins, eða er gert ráð fyrir þessu? „Nei, það er ekki hægt að gera ráð fyrir svona nema - þessi möguleiki er alltaf fyrir hendi. við getum ekkert sett inn að nú sé líklegt að komi hópsmit. það myndi aldrei virka.“

Thor segir að fjöldi smita núna sé nokkrum fleiri en gert var ráð fyrir í líkaninu og segir þessa hópsýkingu ekki vera til marks um að sóttvarnaaðgerðir séu ekki að virka. „Þetta er alltaf möguleiki, við vitum af þessum möguleika, en við látum þetta ekki slá okkur út af laginu. Aðgerðirnar munu virka, það er reynslan,“ segir Thor.