Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Það kemur vonandi dagur eftir þennan dimma dag“

Mynd: RÚV / RÚV
25 ár eru frá einhverjum mannskæðustu náttúruhamförum landsins í seinni tíð; snjóflóðinu á Flateyri. Minningarathöfn verður í bænum í kvöld þar sem kveikt verður á blysum til minningar um þá tuttugu sem fórust.

Klukkan var sjö mínútur yfir fjögur aðfaranótt 26. október 1995 þegar gríðarlegt snjóflóð féll á byggðina á Flateyri. Bæjarbúar voru flestir í fastasvefni þegar hamfarirnar riðu yfir. Alls sváfu 46 manns í þeim 22 húsum sem flóðið féll á. Tuttugu létust í snjóflóðinu, tíu karlar, sex konur og fjögur börn. Enn fleiri misstu ástvini sína og heimili. 

„Það hefði engan órað fyrir þessu. Ekki nokkurn mann. Það er sannleikurinn í þessu. Þetta er svona eins og búið er að segja frá í fréttum. Það er engu við það að bæta. En það kemur vonandi dagur eftir þennan dimma dag og þá verðum við sem lifum að reyna að takast á við þetta líf,“ sagði Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður sem bjó á Flateyri, í samtali við fréttamann Ríkisútvarpsins daginn sem flóðið féll.

Minningarathöfn í kvöld

Sautján hús gjöreyðilögðust í flóðinu en aðeins þrjú þeirra voru innan skilgreinds hættusvæðis þess tíma, og þau var búið að rýma. Aftakaveður með mikilli snjókomu hafði verið daginn áður en flóðið féll.

Fjórum dögum eftir að fljóðið féll tók mikill fjöldi fólks þátt í göngu um miðbæ Reykjavíkur til þess að minnast þeirra sem fórust. Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, fór fyrir göngunni.

Björgunarsveitin Sæbjörg heldur minningarathöfn í beinni útsendingu frá Flateyri á Facebook í kvöld. Útsendingin hefst klukkan átta. Að henni lokinni verða tuttugu blys tendruð á snjóflóðavarnargarðinum, til minningar um þau sem fórust.