Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Riða er ólæknandi sjúkdómur í kindum

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Riða er alvarlegur sjúkdómur sem leggst á kindur og lömb. Riða er ólæknandi. Hún skemmir heilann og mænuna í dýrunum. Hún er mjög smitandi.

Próteinið príon veldur riðu

Hvorki baktería né veira veldur riðu. Þess vegna er ekki hægt að bólusetja kindur við henni. Prótein sem heitir príon veldur riðunni. Heilbrigt príon myndast í flestum vefjum dýra. Príon sem hefur umbreyst og orðið sjúklegt veldur riðu ef það kemst í líkama kindar. Það er mjög erfitt að brjóta príon niður. Það þolir vel bæði hita og kulda og langa suðu. Það geymist líka mjög vel neðanjarðar. Þar komast sól, frost og hiti ekki vel að því til að brjóta það niður. Helst er hægt að vinna á því með klór og vítissóda.

Margar smitleiðir

Riða smitast helst þannig að príonið er í því sem kindurnar éta, drekka eða sleikja. Hún smitast líka í sauðburði. Hún getur borist á milli bæja með kindum, áhöldum eins og rúnings-klippum og heyi. Smit hefur líka borist úr jarðvegi þar sem riðuveikt fé hefur verið urðað.

Riða smitast ekki í fólk

Ekkert bendir til að það sé hættulegt fyrir fólk að umgangast riðuveikt fé. Ekki heldur að borða afurðir af smituðu fé eins og kjöt, mjólk eða slátur.

Nánar má lesa um riðu á vef Matvælastofnunar.

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur