Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Rannsaka mál Gunnvarar og skipverjanna sem sakamál

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Lögreglan á Vestfjörðum hefur hafið rannsókn á máli skipverjanna sem veiktust af COVID-19 um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni í síðustu viku. Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri segir í samtali við fréttastofu að málið sé rannsakað sem sakamál.

Rannsóknin er í höndum Lögreglunnar á Vestfjörðum og Karl segir að hún sé á algjöru frumstigi. Fyrsta skref sé að ræða við alla skipverjana. „Sjáum hvað þeir segja, svo tökum við stöðuna,“ segir hann. Karl segir engan hafa stöðu sakbornings eins og stendur og ótækt sé að segja til um það hversu langan tíma rannsóknin taki. 

Af 25 skipverjum um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni veiktust 22 af COVID-19 og þremur vikum síðar var fyrst farið í sýnatöku. Sá fyrsti veiktist aðeins tveimur dögum eftir að lagt var af stað í þriggja vikna veiðitúr. Hann var sendur í þriggja daga einangrun og í kjölfarið veiktust skipverjarnir hver á fætur öðrum og næstu fjórir voru að sama skapi sendir í þriggja daga einangrun.

Arnar Hilmarsson háseti sagði í fréttum á laugardagskvöld að eftir að þeim hefði verið tilkynnt um smitið hefði þeim verið sagt að halda áfram að vinna og að alvarlegast hefði verið að halda veikum mönnum nauðugum við vinnu. 

Í yfirlýsingu sem Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir togarann út, sendi frá sér í gær segir að rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveirusmit um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 til Landhelgisgæslunnar og láta til þess bærum yfirvöldum eftir að meta hvort rétt væri að sigla skipinu til hafnar. „Því miður fórst það fyrir og ábyrgð á þeim mistökum mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla. Fyrirtækið biður hlutaðeigandi jafnframt einlæglega afsökunar á þessum mistökum,“ segir í yfirlýsingunni.