Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ófullnægjandi fjarskiptasamband þrátt fyrir innspýtingu

26.10.2020 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarstjórinn i Skagafirði segir fjarskiptasamband í Skagafirði enn ekki boðlegt þrátt fyrir innspýtingu eftir óveðrið í desember. Nokkrir staðir séu án fullnægjandi GSM- og Tetra-sambands.

Sveitarfélögin tvö í Skagafirði hafa lýst yfir áhyggjum af lélegu fjarskiptasambandi þar víða. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í sveitarfélaginu Skagafirði, segir samband víða nokkuð gott og margt gott hafi unnist síðustu ár, meðal annars í lagningu ljósleiðara og átaki í innviðum eftir óveðrið í desember í fyrra. „Við erum í rauninni að kalla eftir því að það sé spítt enn frekar í því að það eru ennþá of margir vegakaflar þar sem ekki er fulnægjandi gsm eða Tetra-samband sem okkur finnst ekki boðlegt árið 2020,“ segir Sigfús Ingi. 

Áhrif á störf björgunarfólks

Það sé ekki viðunandi að búa við ekkert eða mjög lélegt GSM-samband. Það dragi úr öryggi íbúa og þeirra sem eigi leið þar um. Þetta er á nokkrum stöðum í Skagafirði og dæmi um að björgunarfólk hafi ekki náð sambandi við þann sem hafi óskað eftir hjálp. Samband hafi bæði dottið út á leiðinni eða boð um aðstoð hreinlega aldrei borist. Sveitarfélögin hvetja því Neyðarlínuna og ríkisvaldið til að setja upp fleiri senda í samvinnu við staðkunnuga, auk þess að stórbæta Tetra-sambandið.

Án heimasíma og GSM sambands

Þá segir Sigfús mikilvægt að fá að ljúka Ísland ljóstengt-átakinu í firðinum áður en gamla koparkerfið, heimasíminn, verður að fullu lagt niður. Það megi eiga von á því á næstu vikum en lagningu ljósleiðara líkur ekki fyrr en á næsta ári. Sé koparkerfið lagt niður fyrir það eigi nokkrir tugir bæja á hættu að vera með lélegan eða engan heimasíma og þar sé oftar en ekki slæmt GSM-samband.