Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Næturgalatungur og fuglshráki

Mynd: ralph repo / Wikimedia Commons

Næturgalatungur og fuglshráki

26.10.2020 - 09:57

Höfundar

Hermann Stefánsson rithöfundur og pistlahöfundur Víðsjár rýnir í ferðasögu Steingríms Matthíassonar, Frá Japan og Kína, sem kom út árið 1939.

Hermann Stefánsson skrifar:

Ferðalag er ekki það sama og ferðalag. Gamaldags ferðalag með tilhlökkun og undirbúningi, skipulagningu, fróðleiksleit og ferðasögu þegar aftur er snúið, er allt annað en skottúr á ráðstefnu þar sem dvalartíminn er ein helgi, kannski vika, undirbúningurinn í skötulíki og tilhlökkunin vananum undirorpin. Maður kynnist ekki annarri menningu í slíkri ferð. Maður kynnist ráðstefnusal, hóteli og nokkrum veitingahúsum. Er eitthvað minna á ráðstefnum að græða núna þegar þær fara fram í gegnum netið? Skreppitúrar eru ekki knúnir áfram af fróðleiksþorsta og forvitni um löndin og um framandi heimsálfur, af skilningsþörf og löngun til að auðga sálarlíf sitt með einhverju sem kann að koma manni spænskt fyrir sjónir og bjóða upp á samanburð við heimahagana. Misminni mig ekki orðaði Guðni Elísson bókmenntafræðingur þessa hugsun manna best í útvarpsviðtali fyrir nokkrum árum: Hann vill ferðast sjaldan og vel, ekki síst af umhverfisástæðum.

En nú er komið kóf, möguleikar á ferðalögum til annarra landa eru takmarkaðir. Það er jafnvel ekki mælt með því að höfuðborgarbúar ferðist innanlands. En auðvitað er hægt að ferðast innanhúss. Maður getur lesið. Hvað á maður að lesa? Íslenskir vefmiðlar hafa oft verið duglegri við að fara með lesendur sína í slík ferðalög. Það er hægt að horfa á efni í myndveitum, sjónvarp, hlusta á útvarp. Og svo eru ferðabækur.

Steingrímur Matthíasson hét maður. Hann fæddist í Reykjavík árið 1876 og ólst upp í Odda á Rangárvöllum og á Akureyri en lést árið 1948 á Borgundarhólmi, eyjunni sem er í grennd við Svíþjóð en tilheyrir Danmörku. Steingrímur var læknir. Árið 1939 sendi hann frá sér merkilega bók. Hún heitir Frá Japan og Kína og er ferðasaga. Enda þótt útgáfuárið sé 1939 segir í bókinni frá ferðalagi sem höfundurinn lagði upp í 27 ára gamall árið 1903. Bókin samanstendur af lítt breyttum pistlum sem Steingrímur sendi til Íslands á ferðum sínum og birtust í blaði á Akureyri sem nefndist Gjallarhorn.

Eftir að hafa lokið læknisprófi í Danmörku og verið um árstíma aðstoðarlæknir á Akureyri hélt Steingrímur til Kaupmannahafnar til að dveljast þar í mánuð en fékk þá óvænt upp í hendurnar tækifæri til að gerast skipslæknir um borð í Prins Valdimar sem var eitt skipanna í myndarlegum stórskipaflota danska ofurfyrirtækisins Austur-Asíufélagið. Steingrímur hugsaði sig ekki tvisvar um, enda hafði það verið draumur hans frá blautu barnsbeini að fara til Austurlanda, eins og hann lýsir í formála bókarinnar.

Það verður að segjast að auk forvitni, undrunar og furðu sem einkennir frásögn Steingríms, sem er auðvitað frá tímum þar sem umhverfi annarra landa var meira framandi, eru athugasemdir hans ansi glöggar og skemmtilegar. Ég er ekki frá því að það hafi tekið bandaríska rithöfundinn Jack London margar bækur að komast að þeirri niðurstöðu um nýlendustefnuna sem Steingrímur Matthíasson orðar í einni efnisgrein sem hljóðar svo:

„Þegar Evrópumenn vilja svæla undir sig lönd villiþjóða, þá er aðferðin vanalega sú — fyrst, að senda trúboða til að boða kristni og „friður sé með yður“. Trúboðarnir kenna nú villimönnunum, að allt sem áður hafi verið þeim heilagt, sé fjarri því að svo sé, og jafnvel margt sé helvízkt, svo sem skurðgoðadýrkun og þess háttar. Og ef þeir eigi trúi á föður, son og heilagan anda, þá sé fjandinn laus og taki þá eftir dauðann. — Þessum boðskap taka sumir illa, skoða það sem goðgá, og eigi ósjaldan vill til að einhver ör í geði og fullt eins sannfærður í sinni trú myrðir trúboðann. Þar með er tækifæri fengið fyrir stórveldið, sem í hlut á. Floti er sendur með her manns til að kenna þessum óróaseggjum mannasiði. Fyrst trúarlærdómurinn, svo siðalærdómurinn — eins og í kverinu. — Og eftir miklar blóðsúthellingar er björninn unninn [...]“

Nú kannski hugsar einhver sem svo að þetta hafi nú verið meiri guðleysinginn og róttæklingurinn, Steingrímur Matthíasson, læknir. Þó hefur honum trú og kristin kirkja verið allt annað en ókunnug því hann var prestssonur. Nánar tiltekið var hann sonur Matthíasar Jochumssonar, sem var einmitt prestur í Odda í Rangárvöllum. Höfundur þjóðsöngsins. Raunar þótti ýmsum Matthías reikull í trúnni og full hallur undir hinn mjög svo frjálslynda únítarisma. Þeir voru til á dögum Matthíasar sem fannst hann hreinlega ekki tækur í íslensku þjóðkirkjuna vegna skoðana sinna og trúarviðhorfa. En það er alveg í takt við friðarhugsjón únítarismans, andstöðu hans við sumar af kennisetningum kirkjunnar og tortryggni gagnvart valdi, sem Steingrímur lýsir aðferðum nýlendustefnunnar.

Rússa undanskilur Steingrímur. Hann segir að Rússar fari skynsamlegar að en aðrir Evrópumenn og hafi harðbannað öllum trúboðum að reyna að kristna Kínverja, undir því yfirskyni að Kínverjar séu „óverðugir að  taka við guðspjöllunum“ en raunverulega ástæðan sé sú að Rússar viti að trúboðarnir komi fleiru illu til leiðar en góðu og Kínverjar séu enda sælir í sinni trú, sem Steingrímur kynnir sér vel, enda hefur hann nægan tíma til að lesa bækur í káetu sinni.

Kannski hjó einhver eftir því að Steingrímur talar um „villiþjóðir“. Það er ekki af neinum menningarhroka. Ef til vill notar hann orðið innan írónískra gæsalappa, alveg eins og hann notar orðið „villimenn“. En í öllu falli er ekki neitt sem bendir til þess að líta megi á skrif hans úr einhverju hásæti siðferðislegra yfirburða dagsins í dag, í trú á framfarir mannsandans, því skipslæknirinn að norðan árið 1903-4 er furðu nútímalegur í hugsun, eiginlega nútímalegri en margur nútímamaðurinn. Svona lýsir hann stöðunni:

„Yfir öllum þjóðum og stéttum stendur Evrópumaðurinn eins og hálfguð og horfir niður á ruslaralýðinn. Og því miður verður alltaf vart við það hér eystra, að hvítir menn skoða þjóðirnar innlendu eins og þræla, sem hafi ekki hálfrétti á við þá.“

Og svo eru það lýsingarnar. Sú jurt sem mesta athygli ferðalangsins vekur er mímósan, „mimosa pudica“, sem fleiri munu kannast við í dag en þá, hana er stundum hægt að fá í gróðurhúsum í Hveragerði. Hún hefur „næma tilfinningu eins og dýr, því óðara en hún er snert með fingri, hneigir hún stofninn niður að jörðu, leggur saman blöðin og lítur út sem blaðlaus, hrufótt grein.“ Athuganir Steingríms á dýrum eru bráðskemmtilegar og þar leynist óvæntur fróðleiksmoli: „Englendingur sagði mér að íslensku hestarnir væru komnir frá Kína. Þar er enn sama kynið. Þetta má rétt vera.“ Á eyjunni Ceylon, sem er í þjóðsögum sögð fyrirmyndin að Eden, kemur ekki á óvart að sjá að Steingrímur aðhyllist þróunarkenninguna og lætur ekki hvarfla að sér að taka sköpunarsöguna bókstaflega.

Eyjan Pulo-Bukom er byggð Malayum og Kínverjum og reynist ekki síður full af náttúruperlum. Í Hong Kong flóir allt í ópíum, sem Englendingar neyddu Kínverja, að sögn Steingríms, með bolabrögðum til að halda áfram verslun með við Indland þegar þeir ætluðu að setja á innflutningsbann. Yfirvofandi er stríð á milli Rússa og Japana og áhöld um hverjir fleiri muni blandast í það stríð. Satt að segja leist vinum og kunningjum Steingríms ekki meira en svo á ferðina af þessum sökum en hann lét ekki stríðsblikur aftra sér, hefði þá fengið nóg að gera sem herlæknir og sloppið við að „ana með stál og blý“. Hann slapp nú samt við að verða herlæknir og skilaði af sér ferðasögu sem ætti skilið að teljast með þeim merkustu sinnar tegundar.

Ferðalagið er svo vel farið, svo vel undirbúið og skilvitin svo næm. Hann lýsir því að hann eigi í vandræðum með að þekkja í sundur kynin í Kína því klæðaburðurinn er eins, karlkyns betri borgarar ganga gjarnan í síðum silkikjólum og það eina sem örugglega aðgreinir kynin er flétta í hári karla sem hjá þeim sem best tekst til nær niður fyrir hné. Hann lýsir því sem er á borðum í Kína sem auk þess sem algengast er inniheldur rétti „sem óþekktir eru í Evrópu, svo sem: hákarlauggarétt, fílafætur, næturgalatungur, fuglshráka, engisprettur og kattaraugu.“ Ég á svolítið erfitt með fuglshrákann. Getur þetta verið satt? Hvernig vinnur maður þann rétt? Hvernig fær maður fugla til að hrækja?

Einu sinni heyrði ég á samtal mér ókunnugs fólks sem komst að þeirri niðurstöðu að þjónustan væri betri á Spáni en í Portúgal. Eins og Spánn og Portúgal væru tveir risavaxnir veitingastaðir. Hvorki næturgalatungur né fuglshráki á boðstólum, bara mishátt þjónustustig. Mér þótti þá betur heima setið og lesnar ferðabækur. Eða bara skroppið til annars lands með því að bregða á fóninn tónlist frá því landi.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Línuleg dagskrá tímabundin bólusetning fyrir leiðindum

Pistlar

Elítismi fyrir fólkið

Pistlar

Þröskuldur villimennskunnar

Pistlar

Brýn sýning um norræna normalíseringu hins kynjaða