Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lögreglan hefur rætt við flesta skipverjana

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Lögreglan á Vestfjörðum hefur rætt við stóran hluta skipverjanna sem voru um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni þegar langflestir í áhöfninni veiktust af COVID-19. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, en rannsókn á málinu hófst í morgun.

Hann segir að unnið sé að því að ræða við alla skipverjana símleiðis. Rannsóknin er á frumstigi en Karl segir að búast megi við að einnig verði rætt við forsvarsmenn hraðfyrstihússins Gunnvarar sem gerir togarann út. Karl segir að þótt málið sé rannsakað sem sakamál hafi enginn stöðu sakbornings enn sem komið er. Þá segir hann ótækt að segja til um það hversu langan tíma rannsóknin taki. 

Af 25 skipverjum um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni veiktust 22 af COVID-19 og þremur vikum síðar var fyrst farið í sýnatöku. Sá fyrsti veiktist aðeins tveimur dögum eftir að lagt var af stað í þriggja vikna veiðitúr. Hann var sendur í þriggja daga einangrun og í kjölfarið veiktust skipverjarnir hver á fætur öðrum og næstu fjórir voru að sama skapi sendir í þriggja daga einangrun.

Arnar Hilmarsson háseti sagði í fréttum á laugardagskvöld að eftir að þeim hefði verið tilkynnt um smitið hefði þeim verið sagt að halda áfram að vinna og að alvarlegast hefði verið að halda veikum mönnum nauðugum við vinnu. 

Ljóst að ekki var farið eftir leiðbeiningum sem lágu fyrir

Í tilkynningu sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sendu frá sér í dag vegna málsins segir að ítarlegar leiðbeiningar hafi legið fyrir strax í vor um það hvernig bregðast skyldi við ef grunur léki á COVID-19 smiti um borð í skipum. Leiðbeiningarnar hafi verið unnar sameiginlega af SFS og stéttarfélögum sjómanna í samráði við landlækni, og sendar á allar útgerðir.

„Um borð í skipum er nánd mikil á milli manna og veikindi geta hæglega borist út, eins og því miður sýndi sig í þessu tilfelli. Af þeim sökum var sérstaklega mikilvægt að vera með skýrar leiðbeiningar um bestu framkvæmd í þessum aðstæðum,“ segir í tilkynningunni. 

„Í tilfelli Júlíusar Geirmundssonar var ekki farið eftir þessum leiðbeiningum. Samkvæmt þeim hefði átt að hafa samband við Landhelgisgæsluna þegar veikinda varð vart og þar með hefði málið verið komið í réttan farveg. Á þessum misbresti verða skipstjóri og útgerð skipsins að axla ábyrgð. Mikilvægt er að samskipti útgerða og sjómanna séu góð, sérstaklega þegar í hlut eiga frystiskip sem eru lengi á sjó. Þetta mál hefur skaðað þessi samskipti. SFS hyggjast ræða málið við forystumenn stéttarfélaga sjómanna á næstu dögum. Mikilvægt er að greina hvað fór úrskeiðis og læra af því. Raunir þessara skipverja á Júlíusi Geirmundssyni mega ekki endurtaka sig á íslenskum skipum,“ segir ennfrekar í tilkynningu SFS.