Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Léttvægt að segjast draga lærdóm af málinu

26.10.2020 - 18:46
Ísafjörður Höfnin Bryggja BátÍsafjörður Höfnin Bryggja Bátur skip Júlíus Geirmundsson ÍS270
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Það eru léttvæg viðbrögð að segjast ætla að draga lærdóm af máli eins og kórónuveirusmitinu um borð í Júlíusi Geirmundssyni, segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Raunir skipverjanna megi ekki endurtaka sig á íslensku skipi.

 

Byrjað var að sótthreinsa skipið síðdegis. Fyrsti skipverjinn af þeim 22 sem sýktust, varð veikur tveimur dögum eftir að lagt var af stað, og síðan veiktust þeir, hver af öðrum. Sumir lágu fyrir í nokkra daga um borð, en þurftu svo að halda áfram að vinna.

Einn, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir að menn hafi ekki verið neyddir til vinnu veikir. Það sé hluti af menningunni á sjó að vinna þegar þú getur staðið í fæturna. Annars þurfa hinir að hlaupa hraðar. Hann kveðst ekki hafa orðið var við að skort á verkjalyfjum, sjálfur lá hann í þrjá daga og vann slappur eftir það. Áhöfnin hafi verið miskvíðin, en þeim elstu hafi liðið verst. Skipstjórinn fullvissaði þá hins vegar um að ekkert væri að óttast, því hann væri í stöðugum samskiptum við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum. Skipverjinn er reiðastur yfir þessum blekkingum, og að reglur hafi verið þverbrotnar um borð. Þá hafi þeir þurft að landa aflanum og þrífa skipið, eftir að covid-smitin voru staðfest.

Sakamálarannsókn hafin

Lögreglan á Vestfjörðum hóf í dag sakamálarannsókn á málinu og hafði nú undir kvöld rætt við flesta skipverjana. Í sjómannalögum er skýrt kveðið á um ábyrgð skipstjóra á því að tryggja sjómönnum læknismeðferð og senda þá í land ef ekki er hægt að tryggja smitvarnir um borð. Brot á ákvæðinu geta varðað sektir og allt að fjögurra ára fangelsi.    

„Það sem á sér stað um borð í skipi er á ábyrgð skipstjóra,“ segir Heiðrún Lind.  „Og það var sérstaklega lögð áhersla á það í þeim leiðbeiningum sem við gerðum með samtökum sjómanna, að ákvarðanir um borð ef grunur er um smit eru á ábyrgð skipstjóra.

Engu að síður kveðst útgerðin axla ábyrgð á þessu og þið takið undir það?

Já, það er alltaf þannig að það eru samskipti milli skips og útgerðar. Ég vænti þess að þau hafi verið þegar þetta mál kemur upp og það fer að bera á veikindum meðal skipverja.“

Markmiðið að „efla liðsandann“

Hraðfrystihúsið Gunnvör, sem gerir út skipið, sendi skipverjunum tölvupóst á föstudaginn þar sem ekki var beðist afsökunar, heldur sagt frá því að ráðgjafarfyrirtæki hefði verið fengið til að greina stöðuna.

„Markmið vinnunnar er að draga lærdóm og finna leiðir til að efla viðbragð og liðsanda til framtíðar í góðri samvinnu við starfsfólk,“ segir í tölvupóstinum. 

Útgerðin byrjaði fyrst í dag að hringja í mennina, biðja þá afsökunar og grennslast fyrir um líðan þeirra.

„Í svona máli finnst mér léttvægt að segja að við ætlum að draga lærdóm af þessu, eins og það komi nýr dagur á morgun og lífið haldi áfram,“ segir Heiðrún. „Ég vil ítreka það sem kom fram í yfirlýsingu okkar að raunir þessara skipverja mega ekki endurtaka sig á íslenskum skipum. Og að því verðum við að vinna, ekki bara með þessu fyrirtæki heldur öðrum fyrirtækjum á vegum samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.“