Fólkið greindist með kórónuveirusmit eftir að tveir íbúar sem nýverið höfðu verið fluttir af Landakoti í Reykjavík á Sólvelli greindust með veiruna. Þá voru allir íbúarnir skimaðir. Sex þeirra greindust neikvæðir og eru nú í sóttkví. Auk íbúanna ellefu greindust fjórir starfsmenn með veiruna.
Mikils virði að vera heima
Jóhanna segir að það sé mikils virði fyrir þá íbúa sem nú eru í einangrun að vera í eigin herbergi, innan um eigur sínar og með starfsfólki sem þeir þekkja. „Þetta eru miklir vinir okkar, skjólstæðingarnir,“ segir hún.
Vissulega aukist verulega álagið á starfsfólkið, enda sé tímafrekt og erfitt að vinna í hlífðargöllum. Nú þurfi að fá fleira fagfólk úr bakvarðasveitum til að koma til starfa á Sólvöllum: „Mitt fólk er að gera sitt allra besta, en það vantar fleiri fagaðila,“ segir hún.
Allir þeir íbúar sem ekki hafa greinst með COVID-19 eru í sóttkví og Jóhanna segir að enginn starfsmaður sinni bæði þeim og þeim smituðu. Hún telur ekki ólíklegt að þeim verði fundinn annar staður en segir að þeir og starfsfólkið verði skimað aftur á morgun. Aðstæður breytist þó hratt og því sé erfitt að segja til um hver lokaniðurstaðan verður.
„Það er hugsað vel um okkur“
Þá segir hún að til allrar hamingju finni enginn íbúi fyrir alvarlegum einkennum eins og stendur. „Það er vel hugsað um okkur, og ef einhver veikist verður auðvitað skoðað að senda hann til Reykjavíkur,“ segir hún og bætir við að þau séu í góðu sambandi við COVID-deildina á Landspítalanum. Þá segir hún að starfsfólkið hafi fengið utanaðkomandi aðstoð, til dæmis hafi komið inn sótthreinsiteymi og matur verið sendur til þeirra. „Það er ýmislegt svona sem auðveldar okkur starfið,“ segir hún.