Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Í ræktarfötunum að syngja bakraddir fyrir Bubba

Mynd: RÚV / RÚV

Í ræktarfötunum að syngja bakraddir fyrir Bubba

26.10.2020 - 15:22

Höfundar

Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir, betur þekkt sem GDRN, var mikill orkubolti sem þráði athygli á sínum yngri árum. Hún þorði þó ekki að syngja fyrir foreldra sína eftir að hún hóf söngnám.

Guðrún Ýr ólst upp á listrænu heimili þar sem mikið var hlustað á tónlist. Hún mætti með uppáhaldslögin sín í Lagalistann á Rás 2 og ræddi þar um lögin og hvernig þau hafa mótað líf hennar.

Plötukaup voru algeng á heimili Guðrúnar en fyrsta platan sem hún bað sjálf um að yrði keypt var Í skugga Morthens. Guðrún Ýr var ekki nema tveggja ára þegar hún bað um plötuna. Hún segist hafa verið til friðs þegar platan var spiluð og því hafi verið hlustað á hana aftur og aftur, mögulega vegna þess að þá gat mamma hennar slappað af og fengið sér kaffibolla. „Ég var mikill orkubolti, þurfti athyglina alveg frá fyrsta degi, hef ekkert hætt síðan,” segir Guðrún Ýr.

Hún fór sjálf að syngja á menntaskólaárunum, segist hafa ákveðið að stíga út úr feimniskúlunni. Hún byrjaði í söngnámi en reiknaði þó ekki með að söngur yrði hennar atvinna. „Ég hélt að ég gæti ekki sungið. Hafði alltaf langað til að gera það en hafði alltaf stimplað inn í hausinn á mér að ég væri með svo lélega rödd að ég væri bara að gera þetta sem áhugamál,” segir hún.

Feimnin hvarf ekki um leið og Guðrún Ýr byrjaði í söngnámi og fyrsta hálfa árið í náminu gat hún ekki sungið fyrir framan foreldra sína. „Þau heyrðu mig ekki syngja, það mátti ekki heyrast í mér. Þau heyrðu í mér fyrst á fyrstu tónleikunum mínum og voru hlæjandi að ég gæti sungið svona vel,” segir Guðrún Ýr. Lagið sem hún söng á þessum tónleikum var Um þig með Ellý Vilhjálms og má sjá upptöku af flutningi hennar á YouTube. 

Um svipað leyti tók hún þátt í söngkeppni í MR þar sem hún bæði söng og spilaði á píanó. Lagið sem hún valdi að flytja var Ó, borg mín borg sem er einmitt á plötunni í skugga Morthens. Guðrún Ýr lenti í öðru sæti i keppninni. 

Eftir að hafa hlustað lengi á lög með Bubba Morthens fékk Guðrún Ýr einnig tækifæri til að vinna með honum, nú síðast á væntanlegri plötu hans. Guðrún Ýr segir að Bubbi hafi einhvern drifkraft og viðmót sem aðrir hafa ekki. Þannig hafi hann fengið hana til að syngja bakraddir á nýrri plötu þegar að hún var á leið í ræktina. „Ég hitti hann um daginn og hann var að tala um að hann væri að taka upp fyrir plötuna sína,” segir Guðrún Ýr sem bauð fram krafta sína í bakraddir. Hún átti þó ekki von á svarinu frá Bubba, „já, okkur vantar núna. Kemstu núna? Komdu með,” sagði Bubbi og hún skellti sér því beint í hljóðver í ræktarfötunum og sleppti ræktinni. 

Fyrr á árinu gaf GDRN út aðra plötu sína og átti að fagna útgáfunni með tónleikum í Háskólabíói. Hún hefur tvisvar þurft að fresta tónleikunum en segist vera staðráðin í að halda þá, hvenær sem það verður. Á meðan samkomubann hefur komið í veg fyrir tónleika með áhorfendum hefur hún þó komið fram á streymistónleikum sem hún segir að séu alltaf frábrugðnir hefðbundnum tónleikum. „Maður fattar þegar það vantar áhorfendur hvað þetta er mikið samtal milli áhorfenda og mín. Það eru engir tónleikar eins af því það eru aldrei sömu áhorfendur, það er aldrei sami andi í salnum. Það er svo skrýtið að vera að syngja og vera meðvitaður um að það er fullt af fólki að hlusta á mann.” segir Guðrún Ýr.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í Spilaranum.