Gera áfram minniháttar aðgerðir og speglanir

26.10.2020 - 17:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Heilbrigðisráðherra hefur fallist á fyrirmæli Ölmu Möllers Landlæknis um að miða við að skurðaðgerðum sem sérfræðilæknar meta að geti beðið í átta vikur eða lengur verði frestað á meðan Landspítalinn er á neyðarstigi.

Þetta verður í gildi til 15. nóvember. Svokallaðar valkvæðar aðgerðir sem verður frestað eru til dæmis hálskirtlatökur, liðskiptaaðgerðir og kviðslitsaðgerðir.  Hins vegar verði minniháttar aðgerðir leyfðar sem hægt er að gera með staðdeyfingu og ólíklegt er að leiði til innlagna á Landspítala. Speglanir vegna gruns um krabbamein verða áfram gerðar.

„Við höfum ákveðið að leyfa aðgerðir sem hægt er að gera í staðdeyfingu því þær eru auðvitað minniháttar og ólíklegt að þær leiði til innlagnar eða komu á bráðamóttöku. Sömuleiðis speglanir sem eru nauðsynlegar ef grunur erum greiningu á krabbameini, þannig að þetta tvennt verður leyft, “ segir Alma. 

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans sagði í fréttum fyrr í dag að það væri óljóst hversu mörgum valkvæðum aðgerðum þyrfti að fresta á spítalanum á meðan neyðarstig er í gildi. Í greiningu Landlæknis á biðlistum eftir aðgerðum sem birt var síðdegis kemur fram að óljóst sé hvaða áhrif faraldurinn hafi á bið eftir völdum aðgerðum til lengri tíma. En þrjða bylgjan var ekki hafin þegar embættið tók nýjustu gögn sín saman. 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV