Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Færeyska flugfélagið fær fé úr landssjóði

26.10.2020 - 02:42
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ríkisrekna færeyska flugfélagið Atlantic Airways fær 100 milljónir danskra króna eða sem nemur 2,2 milljörðum íslenskra króna innspýtingu frá landsstjórninni. Sömuleiðis verður aukið fé lagt til flugvallarins í Vogum og Strandfararskipa landsins.

Jørgen Niclasen fjármálaráðherra tilkynnti þessa ráðstöfun á blaðamannafundi í Þinganesi á föstudag en lögþingið á eftir að fjalla um málið.

Ákvörðunin var tekin til að viðhalda greiðslugetu flugfélagsins en gríðarlegur samdráttur hefur orðið í millilandaflugi til og frá Færeyjum rétt eins og annars staðar í heiminum.

Jóhanna á Bergi, forstjóri flugfélagsins sagði á blaðamannafundinum að útlitið hefði verið bjart í upphafi árs. Eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á hafi allar áætlanir hrunið og stefni í að velta Atlantic Airways verði um helmingur þess sem var 2019.

Ýmsar ráðstafanir hafi verið gerðar til að bregðast við, talsverður hópur starfsfólks er á hlutabótaleið en um eitt hundrað hefur verið sagt upp störfum. Til stendur að skila einni þotu og fresta viðtöku tveggja nýrra Airbus véla um fjögur ár, til 2027 og 2028.

Féð frá landsstjórninni segir Jóhanna á Bergi að komi sér vel enda sé viðbúið að tekjuhalli flugfélagsins 2020 og 2021 nemi samtals um 182 milljónum danskra króna.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV