Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Eina hafnsögukona landsins

26.10.2020 - 14:30
Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV/Landinn
Sheng Ing Wang er eina hafnsögukona landsins og líklega jafnframt sú fyrsta. Hún flutti til Ísafjarðar frá Taívan til að sækja nám í haf- og strandsvæðastjórnun, sem vatt upp á sig.

Gat valið ólíka lífsmáta - í Taipei eða á Ísafirði

Sumarið 2019 starfaði Sheng í afleysingum sem skipstjóri á hafnsögubát Ísafjarðarhafnar og þegar föst staða losnaði hjá höfnum Ísafjarðarbæjar síðasta vetur, sótti hún um og var boðið starfið. „Ég var mjög glöð að fá fréttirnar. Þá fékk ég tækifæri til að ákveða hvort ég vildi vera áfram í Taívan og finna mér starf þar eða flytja hingað og lifa allt öðruvísi lífi - svo ég sagði já,“ segir Sheng Ing Wang. 

Starfaði í fjórtán ár á fraktskipum

Þegar Sheng flutti til Íslands 2018 hafði hún starfað í 14 ár á fraktskipum, þar af fjögur sem skipstjóri. Hún hafði þá jafnan dvalið um níu mánuði á ári á sjó. Sheng vildi ekki snúa aftur til fyrra starfs og og tók sig aftur upp og flutti frá sjö milljóna manna borg, Taipei í Taívan, til Ísafjarðar. Nú hefur hún keypt bæði hús og hund, íslenskan fjárhund. 

Getur séð haustið koma á litunum 

„Í Taipei lifi ég eftir dagatali og tölustöfum til að vita hvað klukkan er og hvaða dagur er. Hér get ég séð litina og fundið að haustið er komið og veturinn á leiðinni. Það er öðruvísi tilfinning,“ segir Sheng. Hún segir að á Ísafirði hægist á tímanum og hún hafi meiri tíma fyrir sjálfan sig, hún njóti þess að lesa og skrifa. Þetta sé nokkurn veginn sá lífstíll sem hún kjósi. 

Ætlar að njóta lífsins

Sheng vill ekki skipuleggja framtíðana nema næstu þrjú árin, sérstaklega á þessum tímum, en segist nú vilja njóta lífsins og fara í gönguferðir með hundinum sínum. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður