Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biðlistar á Reykjalundi aldrei lengri og munu lengjast

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjalundur
Ljóst er að biðlistar á Reykjalundi muni lengjast verulega eftir að fresta þurfti meðferðum á annað hundrað manns vegna kórónuveirusmita sem þar komu þar. Þetta segir forstjóri Reykjalundar. Hann segir óvíst hvort fleiri sjúklingar verði teknir þangað af Landspítala til að létta undir spítalanum sem nú starfar á neyðarstigi.

 

Smitið á Reykjalundi er hluti hópsmits sem kom upp á Landakoti í síðustu viku, en hátt í 80 smit eru rakin til þess. 16 sjúklingar af Landakoti höfðu þá verið fluttir á Reykjalund til að létta undir með Landspítala.

Greint var frá því í gær að fimm starfsmenn og fimm sjúklingar á Reykjalundi hefðu greinst og 30 starfsmenn og 11 sjúklingar eru í sóttkví.  

Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar segir að nú séu rúmlega eitt þúsund manns á biðlista eftir meðferð. Það sé svipaður fjöldi og fái þar meðferð á hverju ári og ljóst sé að biðlistar muni lengjast verulega í kjölfar hópsmitsins. 

„Það er ljóst að þetta mun lengja þá, því miður. Biðlistar inn á Reykjalund hafa aldrei verið lengri í sögunni en akkúrat um þessar mundir. Þetta er auðvitað mjög hvimleitt og snertir endurhæfingarmeðferðir hátt á annað hundrað manns. Við tókum ákvörðun í gær að taka meðferðarhlé alla næstu viku.“

Nú er búið að færa starfsemi Landspítala upp á neyðarstig. Munið þið taka fleiri sjúklinga af Landspítala? „Það hefur ekkert verið ákveðið í því. Umfram allt erum við að ná tökum á ástandinu hér,“ segir Pétur.