Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Banaslys rakið til þreytu eftir langt flug frá Ameríku

26.10.2020 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Banaslys sem varð til móts við bæinn Gröf á Snæfellsnesi í október á síðasta ári má rekja til þreytu ökumanns eftir langt flug frá Ameríku. Hjón frá New York-ríki ásamt þremur börnum þeirra voru í bílnum. 17 ára sonur hjónanna lést eftir að hann og systir hans köstuðust út úr bílnum sem valt rúma 40 metra. Stúlkan var föst undir bílnum þegar vegfarendur komu að slysinu. Þeir björguðu sennilega lífi hennar með því að velta bílnum ofan af henni og hefja endurlífgun í framhaldinu.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Fjölskyldan var að aka vestur Snæfellsveg. Til móts við bæinn Gröf liggur vegurinn í mjúkri vinstri beygju þegar ekið er í vesturátt og í skýrslunni segir að ökumaðurinn hafi ekki fylgt beygjunni eftir heldur ekið út fyrir veginn í vegfláann.  Á vettvangi hafi verið ummerki um að hann hafi reynt að beygja aftur inn á veginn þannig að bíllinn snerist  og valt nokkrum sinnum.

Í slysinu köstuðust  tveir farþegar út úr bílnum, 17 ára drengur og systir hans.  Nefndin telur sennilegt að þau hafi ekki verið í bílbelti. Drengurinn sem lést var 17 metra frá slysstað þegar komið var að. Systir hans lá undir bílnum og eru vegfarendur taldir hafa bjargað lífi hennar þegar þeir veltu bílnum ofan af henni og hófu endurlífgun. Ökumaðurinn og aðrir farþegar slösuðust einnig talsvert. 

Í skýrslunni kemur fram að slysið hafi orðið um klukkan 13 og að fjölskyldan hafi komið til landsins snemma um morguninn eftir langt flugferðalag til Íslands . Þau hefðu hvílst eitthvað en verið þreytt eftir ferðalagið og mikinn tímamismun.  Líklegasta skýringin á slysinu sé því sú að ökumaðurinn hafi sofnað og ekið út af veginum.

Rannsóknarnefndin segir að tímamismunur og næturflug geri það að verkum að margir farþegar séu þreyttir við komuna til landsins. Mikilvægt sé að fræða flugfarþega sem komi úr millilandaflugi um þá áhættu sem þreyttur ökumaður skapi sjálfum sér og öðrum í umferðinni. Þá brýnir nefndin fyrir ökumönnum og farþegum að nota alltaf bílbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. „Vanhöld á bílbeltanotkun eru ein af helstu orsökum banaslysa í umferðinni.“