Aukning atvinnuleysis næstmest hér á landi

26.10.2020 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um atvinnuleysi í þróuðum ríkjum gerir ráð fyrir því að hlutfallsleg aukning atvinnuleysis milli 2019 og 2020 verði næstmest hér á landi. Sjóðurinn spáir því einnig að atvinnuleysi hjaðni hlutfallslega hraðast hér á næstu árum.

Samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má gera ráð fyrir að atvinnuleysi á Íslandi tvöfaldist milli ára og fari úr 3,6 prósentum árið 2019 í 7,2 prósent á þessu ári. Þá er spáð að fjögur prósent vinnuaflans verði án vinnu árið 2023.

Sjóðurinn spáir fyrir um atvinnuleysi í 39 löndum, þar á meðal í evrulöndunum nítján, Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Í þeim öllum er spáð auknu atvinnuleysi. Mesta aukningin verður í Bandaríkjunum þar sem spáð er 8,9 prósent atvinnuleysi í ár borið saman við 3,7 prósent í fyrra.

Næstmest er aukningin á Íslandi og þriðja mesta í Hong Kong, þar sem gert er ráð fyrir að atvinnuleysi fari úr þremur prósentum í 5,2 prósent.

Atvinnuleysi hér á landi eykst um 3,7 prósentustig milli ára og ef horft er til prósentustigabreytingar er aukningin sú fjórða mesta. Samkvæmt spánni verður hún meiri í Bandaríkjunum, Kanada og Púertó Ríko. 

Atvinnuleysi í evrulöndunum fer að meðaltali úr 6,7 prósentum á síðasta ári og upp í 8,4 prósent á þessu ári. Atvinnuleysi á Norðurlöndunum fer úr 5,6 prósent á síðasta ári og upp í 6,9 prósent á þessu ári.

Mesta atvinnuleysið á þessu ári, samkvæmt spá AGS, verður í Grikklandi, 19,9 prósent, og á Spáni þar sem gert er ráð fyrir að 16,8 prósent vinnuaflans verði atvinnulaus.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bjartsýnn í samanburði við aðra

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er bjartsýnni á atvinnuleysisþróunina hér á landi en aðrir sem spáð hafa um það sama. Meðaltal greininga Landsbankans, Seðlabankans, Íslandsbanka, Arion banka, Hagstofu Íslands, Moody´s og OECD um atvinnuleysi á þessu ári er 8 prósent en 7,2 prósent hjá AGS.

Á næsta ári er meðaltal þessara greinenda 7,6 prósent og 5,8 prósent árið 2022. Til samanburðar spáir AGS sjö prósent atvinnuleysi á næsta ári og fimm prósent árið 2022. Landsbankinn gerir ráð fyrir 7,8 prósent atvinnuleysi á þessu ári, 8,4 prósent á næsta ári og 5,8 prósent árið 2022.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hlutfallslega hraðri minnkun atvinnuleysis hér á landi á næstu árum. Á milli áranna 2020 og 2023 verður hlutfallslega mesta minnkun atvinnuleysis hér á landi af öllum löndunum.